25.5.2009

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að Bændasamtök Íslands hafi brotið samkeppnislög

baendasamtokinÞann 6. mars sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands (BÍ), ákvörðun nr. 9/2009, hafi brotið gegn samkeppnislögum með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum. Átti brotið sér stað í tengslum við Búnaðarþing sem haldið var í mars 2008. Var brotið talið snúa að búvörum sem ekki lúta opinberri verðlagningu skv. búvörulögum, s.s. kjúklingum, eggjum, grænmeti og svínakjöti. Vegna þessa brots var BÍ gert að greiða 10.000.000 kr. stjórnvaldssekt og lagt fyrir BÍ að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að samskonar brot verði endurtekin.

BÍ sættu sig ekki við þessa ákvörðun og skutu málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Samtökin telja sig ekki hafa brotið samkeppnislög og halda því fram að aðgerðir þeirra falli ekki undir ákvæði samkeppnislaga. Hafa BÍ í því sambandi vísað til ákvæða búvörulaga. Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar byggt á því að samkeppni sé ætlað að tryggja hagsmuni almennings varðandi þær búvörur sem ekki lúta opinberri verðlagningu. Í málinu reyndi því á mikilvæg álitaefni varðandi samspil búvörulaga og samkeppnislaga.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar, sem birtur er í dag, er staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samkeppnislög hafi tekið til aðgerða BÍ. Segir nefndin að verðlagning búvara sem ekki eru verðlagðar á grundvelli búvörulaga lúti „lögmálum hins frjálsa markaðar og þar með ákvæðum samkeppnislaga eins og samkeppnisyfirvöld hafa staðfest hvað eftir annað með úrskurðum þar að lútandi.“ Staðfesti nefndin einnig að BÍ hafi brotið gegn samkeppnislögum með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum og taldi nefndin að um óvéfengjanlegt lögbrot hafi verið að ræða.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi hæfilegt að lækka sekt BÍ í sjö og hálfa milljón kr. Var í því sambandi vísað til þess að um fyrsta brot BÍ væri að ræða og að opinskáar umræður hefði lengi viðgengist á vettvangi BÍ án afskipta. Áfrýjunarnefnd taldi fyrirmæli Samkeppniseftirlitsins til BÍ um aðgerðir til að koma í veg fyrir að samskonar brot verði endurtekin of almenn og felldi þau úr gildi. Mun Samkeppniseftirlitið í kjölfar þessa úrskurðar setja sig í samband við BÍ til að tryggja að settar verði skýrar vinnureglur sem tryggi að á vettvangi BÍ eigi sér ekki aftur stað ólögmætt verðsamráð.

Sjá nánar úrskurð Áfrýjunarnefndar nr. 7/2009 um frestun réttaráhrifa.
Sjá nánar fullan úrskurð Áfrýjunarnefndar nr. 7/2009 í málinu.