11.3.2016

Yfirtaka Ríkissjóðs Íslands á Íslandsbanka heimiluð með skilyrðum

Með ákvörðun sem birt er í dag hefur Samkeppniseftirlitið heimilað yfirtöku íslenska ríkisins á Íslandsbanka, með skilyrðum sem aðilar málsins hafa sæst á að fylgja.

Eftir yfirtöku Ríkissjóðs Íslands á hlut Glitnis hf. í Íslandsbanka hf. fer Bankasýsla ríkisins með allan eignarhlut í bankanum, jafnframt því sem Bankasýslan fer með 98,2% eignarhlut í Landsbankanum, 13% hlut í Arion banka, 49,5% hlut í Sparisjóði Austurlands.

Yfirtaka ríkissjóðs á Íslandsbanka leiðir til þess að 65-70% af innlánastarfsemi í landinu verður undir yfirráðum sama aðila, auk þess sem Íslandsbanki og Landsbankinn hafa saman mjög sterka stöðu á fleiri mikilvægðum undirmörkuðum fjármálaþjónustu. Yfirráð sama aðila yfir tveimur keppinautum með svo sterka stöðu eru að öllu jöfnu til þess fallin að raska samkeppni með alvarlegum hætti. Í hinu sameiginlega eignarhaldi felst hætta á því að starfsemi bankanna verði samræmd, beint eða óbeint, með skaðlegum hætti fyrir viðskiptavini og samfélagið.

Aðilar málsins eru meðvitaðir um þessa hættu. Þannig hafa stjórnvöld engin áform um að sameina eða samþætta starfsemi keppinautanna tveggja, Íslandsbanka og Landsbankans, hvorki með samstarfi þeirra á milli eða með því að renna þeim saman. Þá liggur einnig fyrir að stjórnvöld áforma sölu á eignarhlutum í viðskiptabönkum í eigu ríkisins, a.m.k. að hluta.

Jafnframt hafa stjórnvöld nú skuldbundið sig með sátt við Samkeppniseftirlitið til þess að fylgja reglum og grípa til aðgerða sem stuðla að því að bankarnir verði reknir sem sjálfstæðir keppinautar. Viðskiptabankarnir tveir sem verða undir yfirráðum ríkisins hafa einnig skuldbundið sig til að fylgja skilyrðum sem stuðla að hinu sama. Þannig verður gripið til ráðstafana sem ætlað er að koma í veg fyrir að hið sameiginlega eignarhald hafi skaðleg áhrif á samkeppni.

Í sáttinni er m.a. kveðið á um eftirfarandi:

  • Tryggt er að bann við samráði tekur að fullu og öllu leyti til hvers konar samskipta Íslandsbanka og Landsbankans. Þýðir þetta að bann 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins tekur til allra samskipta bankanna og varða brot þeirra sektum skv. 37. gr. samkeppnislaga. Jafnframt leiðir af þessu að starfsmenn og stjórnarmenn Íslandsbanka og Landsbanka geta bakað sér refsiábyrgð með samskiptum sín á milli, sbr. 41. gr. a. samkeppnislaga.
  • Mælt er fyrir um óhæði þeirra stjórnarmanna sem Bankasýslan kýs í stjórnir viðskiptabanka og sparisjóða, gagnvart öðrum keppinautum. Í þessu skyni er einnig mælt fyrir um hvernig staðið skuli að vali stjórnarmanna.
  • Mælt er fyrir um að horft sé til mögulegra samkeppnishindrana í mótun á stjórnarháttum í bönkunum.
  • Mælt er fyrir um mótun verklags innan Bankasýslunnar sem kemur í veg fyrir að afskipti hennar eða öflun/miðlun upplýsinga stuðli að samkeppnishamlandi samræmingu milli bankanna.
  • Tryggt er að eigendastefna ríkisins taki mið af framangreindu.

Við mat Samkeppniseftirlitsins skiptir einnig máli að framsal til ríkissjóðs á eignarhlut í Íslandsbanka er mikilvægur liður í markmiðum ríkisins um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og afléttingu gjaldeyrishafta.

Gerð er nánari grein fyrir málinu í ákvörðun nr. 9/2016, sem nálgast má hér.