18.3.2016

Sjónarmið við eldsneytisskýrslu Samkeppniseftirlitsins hafa borist

Eins og Samkeppniseftirlitið hefur kynnt opinberlega hefur undanfarið verið leitað eftir sjónarmiðum við því frummati á eldsneytismarkaðnum, sem birt var í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2015, Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum – Frummatsskýrsla. 

Frestur til að skila inn sjónarmiðum er nú liðinn. Alls hafa 22 aðilar sent inn sjónarmið og eru þau verið birt á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið þakkar þessum aðilum fyrir að hafa komið sjónarmiðunum á framfæri.

Í maí eða júní mun Samkeppniseftirlitið efna til fundar þar sem fjallað verður nánar um skýrsluna og sjónarmið sem komin eru fram, sbr. 8. gr. reglur nr. 490/2013 um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins. Skipulagning fundarins verður kynnt síðar. 

Að fengnum framkomnum sjónarmiðum mun Samkeppniseftirlitið meta hvort eða að hvaða marki sé ástæða til að endurskoða niðurstöður frummatsins. 

Í frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem birt var þann 30. nóvember sl. er fjallað með ítarlegum hætti um aðstæður og háttsemi á markaðnum og mögulegar aðgerðir til að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi. Frummatsskýrslan er liður í markaðsrannsókn þar sem tekin er afstaða til þess hvort og þá hvaða samkeppnishindranir séu til staðar á eldsneytismarkaðnum. 

Á meðan á umsagnarferlinu stóð fékk Samkeppniseftirlitið ýmsar spurningar um efni skýrslunnar og forsendur. Svörum við þeim spurningum var komið jafnóðum á framfæri á vefsíðu eftirlitsins. 

Nánari upplýsingar um frummatsskýrsluna, markaðsrannsóknina og framkomin sjónarmið má nálgast hér.