Fréttatilkynning: Aðgerðir til opnunar markaða og eflingar atvinnulífs
Aðgerðir í framhaldi af skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnulífs, sem birt var í lok nóvember á síðasta ári
- Í nóvember sl. birti Samkeppniseftirlitið í skýrslu nr. 2/2008 stefnumörkun um viðbrögð við efnahagskreppu og benti á fjölmargar aðgerðir til að efla samkeppni og flýta endurreisn atvinnulífsins.
- Aðilum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greiningu eftirlitsins. Athugasemdirnar hafa verið yfirfarnar og leiðréttingar færðar inn í skýrsluna. Ekki eru gerðar breytingar á efnislegu mati Samkeppniseftirlitsins á þessu stigi.
- Um 40 mál eða athuganir eru nú til meðferðar eða í undirbúningi, sem tengjast beint þeim samkeppnishindrunum sem fjallað er um í skýrslunni.
- Erfið staða fyrirtækja á mörgum mikilvægum samkeppnismörkuðum gerir aðgerðir til eflingar samkeppni enn brýnni.
- Alþjóðleg samstaða er um mikilvægi þess að bregðast við efnahagslegum áföllum með eflingu samkeppni.
Skýrslan - upprifjun
Í framhaldi af bankahruninu síðasta haust birti Samkeppniseftirlitið þann 27. nóvember sl. ítarlega skýrslu (150 bls.) um opnun markaða og eflingu atvinnustarfsemi og samkeppni. Meginniðurstaða skýrslunnar var að aðgerðir til þess að viðhalda eða efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins og eru því rétt viðbrögð við efnahagskreppu. Í skýrslunni var nánar fjallað um eftirfarandi:
- Reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni.
- Greiningu á um 15 samkeppnismörkuðum, þar sem dregnar voru fram helstu hindranir sem ný fyrirtæki eða smærri fyrirtæki standa frammi fyrir þegar þau hefja starfsemi eða hasla sér frekari völl. Jafnframt var bent á aðgerðir sem geta rutt úr vegi eða dregið úr þessum hindrunum.
- Leiðir sem opinberir aðilar geta gripið til í því skyni að opna markaði og viðhalda samkeppni.
- Nýsköpun og frumkvöðla, þar sem dregnar voru á sama hátt fram helstu hindranir og bent á aðgerðir til úrbóta.
Skýrslan var send fjölmörgum aðilum til umsagnar og var hún og er almenningi aðgengileg á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.
Lagt hefur verið mat á athugasemdir og sjónarmið
Rúmlega 30 aðilar sendu Samkeppniseftirlitinu sjónarmið og athugasemdir vegna skýrslunnar. Langflestar athugasemdir lutu að tilteknum atriðum í umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um einstaka markaði. Umsagnaraðilar tóku í mörgum tilvikum undir mat Samkeppniseftirlitsins, en allmörg fyrirtæki gerðu athugasemdir við umfjöllun um markaði sem þau starfa á. Þannig gerðu nokkur stærri fyrirtæki athugasemdir við umfjöllun eftirlitsins um stöðu þeirra á viðkomandi mörkuðum, sem breyst hefði til hins verra á síðustu mánuðum. Í einstaka tilvikum var farið fram á leiðréttingar á skýrslunni.
Samkeppniseftirlitið hefur yfirfarið framkomnar athugasemdir og sjónarmið. Eftirlitið hefur ekki í hyggju að endurskoða á þessu stigi hið samkeppnislega mat sem fram kemur í skýrslunni, en hefur þess í stað umrædd sjónarmið til hliðsjónar við forgangsröðun verkefna og markaðsgreiningar á næstu mánuðum. Hins vegar hafa villur í upphaflegri skýrslu verið leiðréttar og er skýrsluna svo breytta að finna á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið ræðst í aðgerðir til opnunar markaða og eflingar atvinnustarfsemi
Samkeppniseftirlitið hefur ráðist í margþættar aðgerðir sem miða að því að opna markaði og efla atvinnustarfsemi, í framhaldi af útgáfu skýrslunnar. Aðgerðirnar byggja á því mati sem fram kemur í skýrslunni, að teknu tilliti til umsagna sem fram hafa komið.
Um 40 mál eða athuganir eru nú til meðferðar eða í undirbúningi, sem tengjast beint þeim samkeppnishindrunum sem fjallað er um í skýrslunni. Allmargar þessara athugana beinast að tilteknum fyrirtækjum en einnig hefur Samkeppniseftirlitið í ýmsum tilvikum hafið málsmeðferð sem miðar að því að beina formlegum álitum skv. samkeppnislögum til opinberra stjórnvalda, þess efnis að draga úr tilteknum samkeppnishindrunum.
Eitt þeirra mála sem nú er til athugunar er að stjórnvöldum verði gert að meta samkeppnisleg áhrif nýrra laga og stjórnvaldsfyrirmæla, til þess að draga úr hættunni á því að reistar séu að óþörfu skorður við samkeppni og þar með dregið úr virkni atvinnulífsins. Samkeppniseftirlitið hefur ritað forsætisráðuneytinu bréf þar sem bent er á mikilvægi þess að slíkt samkeppnismat sé framkvæmt við setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Í bréfinu er gerð tillaga að einfaldri framkvæmd matsins, þar sem notast verði við staðlaðan spurningalista. Að fengnum sjónarmiðum forsætisráðuneytisins verður tekin afstaða til þess hvort þörf sé á útgáfu sérstaks álits vegna þessa.
Rétt er að taka fram að Samkeppniseftirlitið mun þurfa að forgangsraða þessum verkefnum með hliðsjón af fjölmörgum öðrum verkefnum á könnu þess. Lyktir framangreindra athugana og málshraði ræðst m.a. af þeirri forgangsröðun.
Erfið staða fyrirtækja á mörgum mikilvægum samkeppnismörkuðum gerir aðgerðir til eflingar samkeppni enn brýnni
Þeir 15 samkeppnismarkaðir sem Samkeppniseftirlitið fjallaði sérstaklega um í fyrrgreindri skýrslu hafa sérstaklega mikla þýðingu fyrir neytendur og fyrirtæki. Fjármálaþjónusta, vátryggingar, matvörumarkaðir, lyfjamarkaður, olíumarkaður, fjölmiðlar og fjarskipti eru á meðal þessara markaða. Þá er flutningamörkuðum gerð sérstaklega skil, bæði er varða flutninga á vörum og fólki, á landi, lofti og sjó. Flutningamarkaðir eru sérstaklega mikilvægir bæði frá sjónarhóli neytenda og eflingar atvinnustarfsemi á flestum sviðum.
Samkeppniseftirlitið hefur fylgst með framvindu mála á fyrrgreindum mörkuðum frá bankahruninu. Ljóst er að mikilvæg fyrirtæki á þessum mörkuðum (eða eigendur þeirra) eiga í erfiðleikum. Einhverjir keppinautar á flestum þessara markaða lúta nú beint eða óbeint yfirráðum einhvers af ríkisbönkunum þremur.
Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að hugað sé að framtíðar samkeppnisaðstæðum á þessum mikilvægu sviðum atvinnulífsins. Nefna má þrennt í því sambandi:
- Mikilvægt er að sporna við óæskilegri samþjöppun og leita annarra lausna við úrlausn á vanda viðkomandi fyrirtækja.
- Draga þarf eins og kostur er úr hindrunum sem standa því í vegi að ný fyrirtæki hasli sér völl á viðkomandi mörkuðum eða vaxi við hlið stærri fyrirtækja. Þetta er sérstaklega mikilvægt á mörkuðum þar sem tímabundin skerðing á samkeppni, t.d. með aukinni samþjöppun, er óhjákvæmileg.
- Viðbrögð ríkisbankanna þriggja við vanda einstakra fyrirtækja eða markaða þurfa að taka mið af langtímahagsmunum neytenda og fyrirtækja af virkri samkeppni. Afar brýnt er að þeir móti sér trúverðugt verklag í þessu efni. Nefna má að Samkeppniseftirlitið hefur beint til þeirra tilmælum sem lúta að þessu, sbr. álit nr. 3/2008, Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum.
Mun meiri hætta er á að fyrirtæki raski samkeppni með aðgerðum sínum í efnahagskreppu en þegar betur árar. Hvatinn til þess að taka þátt í ólögmætu samráði eða misbeita ráðandi stöðu eykst og erfiðleikar í rekstri geta dregið úr virðingu fyrir lögum. Brýnt er því að gæta þess að fyrirtæki í erfiðleikum grípi ekki til úrræða sem brjóta gegn samkeppnislögum. Slík úrræði fela að jafnaði í sér mikinn skaða fyrir samfélagið.
Þá er mjög mikilvægt við þessar aðstæður að löggjafinn grípi ekki til neinna aðgerða sem draga úr samkeppni á þessum mikilvægu mörkuðum. Sérstaklega er mikilvægt að draga ekki úr hvötum til samkeppni milli fjármálafyrirtækja, því smitáhrif slíkra aðgerða út í önnur svið atvinnulífsins geta verið mikil. Almenningur og fyrirtæki hafa af því mikla langtíma hagsmuni að samkeppni ríki á fjármálamörkuðum. Hefur Samkeppniseftirlitið komið þessum sjónarmiðum skýrt á framfæri í umfjöllun um málefni fjármálamarkaða á vettvangi Alþingis.
Alþjóðleg samstaða um mikilvægi þess að bregðast við efnahagslegum áföllum með eflingu samkeppni
Í skýrslunni Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi er, eins og áður sagði fjallað um reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að;
- aðgerðir til þess að takmarka samkeppni framlengja efnahagsörðugleika og vinna gegn bata,
- aðgerðir til þess að viðhalda eða efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.
Á síðustu vikum og mánuðum hefur þessi lærdómur einnig verið dreginn með skýrum hætti í nágrannalöndum. Nefna má að ný ríkisstjórn Bandaríkjanna leggur á það áherslu að aðgerðir til þess að stuðla að virkri samkeppni sé mikilvægur liður í viðbrögðum við efnahagskreppum og að ekki megi endurtaka þau mistök sem gerð voru í kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar og fólust í því að draga úr virkni samkeppnislaga.
Framkvæmdastjórn EB hefur áréttað hið sama sem og önnur evrópsk samkeppnis-yfirvöld. Á ráðstefnu í Bergen þann 2. júní sl. lagði ráðherra samkeppnismála í Noregi, Heidi Grande Röys, sérstaka áherslu á styrkingu samkeppniseftirlits í ríkjandi efnahagssamdrætti og að draga þyrfti lærdóm af mistökum sem gerð hafa verið í fyrri efnahagskreppum, til skaða fyrir samfélagið og neytendur. Dönsk samkeppnisyfirvöld hafa bent á að virk samkeppni byggi upp atvinnulífið, ekki síst á tímum efnahagsþrenginga. Hafa þau borið saman efnahagskreppurnar í Japan og Kóreu á níunda áratug síðustu aldar og lýst því að aðgerðir í Kóreu til þess að efla samkeppni hafi haft þau áhrif að hagkerfi Kóreu náði sér mun fyrr.