Vegna umfjöllunar um beiðni Kaffitárs ehf. um gögn vegna útboðs Isavia ohf. á verslunarrými á Keflavíkurflugvelli
Með bréfi, dags. 25. júní sl., sneri Isavia ohf. sér til Samkeppniseftirlitsins, vegna úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. A-723/2015, þar sem Isavia er gert skylt að afhenda Kaffitári ehf. tiltekin gögn. Gafst Samkeppniseftirlitinu jafnframt tækifæri til að sjá umrædd gögn. Varð það Samkeppniseftirlitinu tilefni til að senda Isavia og Kaffitári bréf þar sem reifuð eru viðurkennd sjónarmið sem byggt er á við mat á því hvort miðlun upplýsinga milli keppinauta feli í sér samkeppnisröskun í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Við þá reifun studdist Samkeppniseftirlitið við leiðbeiningar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA, auk innlendra og erlendra fordæma. Í bréfinu kemur fram að eftirlitið fái ekki betur séð en að umrædd gögn hafi að geyma viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar í skilningi samkeppnisréttar.
Að gefnu tilefni er rétt að árétta að framangreint mat Samkeppniseftirlitsins hefur engin áhrif á þá formlegu skyldu til miðlunar upplýsinga sem lögð hefur verið á aðila með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur. Þetta er skýrt í bréfi eftirlitsins, enda er þar einungis beint tilmælum til aðila um að leita leiða til að uppfylla þarfir Kaffitárs til að fá aðgang að upplýsingum, án þess að til samkeppnisröskunar þurfi að koma. Bréfið felur þannig í sér leiðbeiningu til aðila málsins.
Af framangreindu má ennfremur ráða að miðlun upplýsinga á grundvelli úrskurðar héraðsdóms verður ein og sér ekki tilefni til rannsóknar brotamáls á hendur þeim sem miðlaði eða tók við upplýsingunum. Samkeppniseftirlitið mun hins vegar taka afstöðu til þess hvort fylgjast þurfi nánar með þróun markaðarins í framhaldi af miðlun upplýsinganna.