Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að Vélar og verkfæri hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína
Þann 8. apríl sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vélar og verkfæri ehf. hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Þetta gerði fyrirtækið með því að koma í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð og með því að vinna gegn því að aðrir erlendir framleiðendur næðu fótfestu á íslenskum markaði. Brot fyrirtækisins var talið alvarlegt og talið hafa áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda. Vegna þessa brots var Vélum og Verkfærum gert að greiða 15.000.000 kr. stjórnvaldssekt.
Vélar og Verkfæri skutu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og kröfðust þess að hún yrði felld niður eða sektir lækkaðar verulega. Fyrirtækið gerði m.a. athugasemdir við skilgreiningu markaða málsins, stöðu þess á markaði og meinta misnotkun þess á markaðsráðandi stöðu.
Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem birtur er í dag, er staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Vélar og Verkfæri séu í markaðsráðandi stöðu og að um einkakaupasamninga markaðsráðandi fyrirtækis hafi verið að ræða sem séu til þess fallnir að útiloka samkeppni og fari í bága við 11. gr. samkeppnislaga.
Áfrýjunarnefndin taldi hins vegar þá skilgreiningu Samkeppniseftirlitsins að sala á efni til framleiðslu höfuðlyklakerfis tilheyri sérstökum markaði of þrönga en féllst á þau rök eftirlitsins að höfuðlyklakerfi tilheyrðu sérstökum markaði og jafnframt að ekki væri staðganga á milli þess markaðar og annarra aðgangskerfa í þeim mæli að það geti haft áhrif á markaðsskilgreininguna. Þá benti áfrýjunarnefndin á að Vélar og Verkfæri væru eini aðilinn sem flutt hefði inn efni til framleiðslu á höfuðlyklakerfum frá árinu 2002. Allir aðrir seljendur á markaðnum væru háðir fyrirtækinu um efnisöflun og þar með talið kerfið sjálft. Þó svo vísbendingar lægju fyrir um að hægt væri að komast inn á markaðinn án verulegra vandkvæða yrði að horfa til þess að efnahagslegur styrkleiki Véla og Verkfæra væri töluverður og að hinn skilgreindi markaður velti einungis tiltölulega lágum fjárhæðum á ári. Því væru ekki miklir hagsmunir í því fólgnir fyrir nýja aðila að koma inn á hann.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi hæfilegt að lækka sekt Véla og Verkfæra í 10.000.000 kr. Var í því sambandi vísað til þess að rétt væri að horfa til stærðar viðkomandi markaðar og þeirra hagsmuna sem við hann væru tengdir.
Sjá nánar úrskurð Áfrýjunarnefndar Samkeppnismála nr. 9/2009.