23.11.2009

Samkeppniseftirlitið leggur stjórnvaldssekt á Feng vegna brota á samkeppnislögum

Í nýrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Eignarhaldsfélagið Fengur hf. hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við því að samruni komi til framkvæmda áður en eftirlitið hefur heimilað hann. Fengur og Samkeppniseftirlitið gerðu sátt í málinu. Skal Fengur greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 10 milljónir króna vegna brotsins.

Í samkeppnislögum er lagt bann við því að samruni komi til framkvæmda áður en tilkynnt hefur verið um hann til Samkeppniseftirlitsins og ákvörðun eftirlitsins liggur fyrir um hvort samruninn hindri virka samkeppni, nema til komi sérstakt leyfi Samkeppniseftirlitsins. Þessari reglu er ætlað að tryggja að unnt sé með fullnægjandi hætti að vinna gegn samkeppnishamlandi samrunum. Er sérstaklega gert ráð fyrir því í samkeppnislögum að lögð séu viðurlög á fyrirtæki sem brjóta gegn þessari reglu.

Samkeppniseftirlitið tilkynnti Feng það mat sitt að svo virtist sem brotið hefði verið gegn banni samkeppnislaga við framkvæmd á samruna Fengs og Ferðaskrifstofu Íslands. Í framhaldi af því leitaði Fengur til eftirlitsins og óskaði eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Viðræður leiddu til þess að sátt var gerð við félagið líkt og Samkeppniseftirlitinu er heimilt samkvæmt samkeppnislögum. Sú heimild er til þess fallin að stytta rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda. Um samrunann er fjallað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 20. nóvember 2009 nr. 36/2009.

Sjá nánar ákvörðun nr. 37/2009.