10.12.2009

Skaðleg samþjöppun í mjólkuriðnaði. Álit til landbúnaðarráðherra

Samkeppniseftirlitið kallar eftir aðgerðum stjórnvalda til þess að örva samkeppni á íslenskum mjólkurmarkaði

  • SE_SkjaldamerkiSamruni Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og Mjólku er samkeppnishamlandi, en búvörulög koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða. Með samrunanum hefur myndast einokun í mjólkuriðnaði í skjóli búvörulaga.
  • Í áliti til landbúnaðarráðherra í dag mælist Samkeppniseftirlitið til þess að gripið verði til tafarlausra aðgerða til þess að örva samkeppni á íslenskum mjólkurmarkaði og takmarka eins og unnt er skaða íslenskra neytenda og bænda. Meðal annars verði lögfest heimild til uppskipta mjólkurafurðastöðva.
  • Um 15-20% af neysluútgjöldum vegna matvæla hér á landi fara til kaupa á mjólk- og mjólkurvörum. Miklir neytendahagsmunir eru því fólgnir í virkri samkeppni á þessum markaði.

Kaup KS á Mjólku
Þann 18. september 2009 var tilkynnt um samruna KS og Mjólku. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 40/2009, Samruni Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Mjólku ehf./Eyjabús ehf., er komist að þeirri niðurstöðu að samruninn sé samkeppnishamlandi og andstæður markmiðum samkeppnislaga nr. 44/2005. Hins vegar skorti Samkeppniseftirlitið lagaheimild til að eyða samkeppnishömlum sem stafa af samrunanum vegna sérlagaákvæða í búvörulögum.

Vegna breytinga á búvörulögum sem gerðar voru árið 2004 er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði veitt heimild til þess að sameinast án afskipta samkeppnisyfirvalda. Einnig var veitt undanþága frá banni við samkeppnishamlandi samráði. Á grundvelli þessa varð gríðarleg samþjöppun á markaðinum og þessi lagaheimild hefur nú orðið til þess að engin samkeppni er lengur til staðar í mjólkuriðnaði, en fyrirtæki sem starfa þar velta tugum milljarða kr. á hverju ári.

Frá árinu 2005 hefur Mjólka veitt stærri aðilum samkeppnislegt aðhald og starfsemi fyrirtækisins varð til þess að verð á mjólk til bænda hækkaði og verð til neytenda lækkaði. Við samrunann hverfur það aðhald og hefur nú skapast einokunarstaða á markaðnum. Starfandi fyrirtæki, Mjólkursamsalan og KS, geta ekki talist keppinautar enda eru á milli þeirra náin eigna-, stjórnunar- og samráðstengsl.

Samkeppniseftirlitið beinir því til landbúnaðarráðherra að grípa til tafarlausra aðgerða
Vegna alvarlegrar stöðu á þessum mikilvæga neytendamarkaði hefur Samkeppniseftirlitið í dag beint sérstöku áliti til landbúnaðarráðherra. Í álitinu er þeim tilmælum beint til landbúnaðarráðherra að hann grípi til tafalausra og nauðsynlegra aðgerða til þess að hægt verði að takmarka eins og unnt er skaða íslenskra neytenda og bænda sem stafa mun af umræddri einokun.

Tilmæli Samkeppniseftirlitsins til landbúnaðarráðherra lúta að því að skoðaðar verði leiðir til þess að koma á samkeppni á þessu sviði, m.a. með því að sett verði í lög heimild til uppskipta á mjólkurafurðastöðvum og ryðja að sama skapi úr vegi samkeppnishindrunum sem nýir aðilar standa frammi fyrir þegar þeir freista þess að hefja starfsemi á þessu sviðið. Einnig er því beint til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér tafarlaust fyrir því að undanþága mjólkuriðnaðarins frá banni við samkeppnishamlandi samráði og samrunareglum samkeppnislaga verði felld úr gildi þannig að eðlilegar samkeppnisreglur gildi um þessi fyrirtæki eins og önnur íslensk fyrirtæki.

Af gefnu tilefni er því einnig beint til ráðherra að hann beiti sér fyrir því að tryggt verði að jafnræðis sé gætt þegar unnið er við undirbúning lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla, þannig að allir hagsmunaaðilar á markaði hafi sama tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum. Á þessu hefur verið alvarlegur misbrestur.

Í álitinu er einnig mælst til þess að viðeigandi hagsmunaaðilar, s.s. Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands, fylgist náið með verðþróun á mjólkurvörum, einkum þeim vörum sem áður töldust samkeppnisvörur, í því skyni að skapa aðhald.

Álitið er hægt sækja hér (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga)

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Bakgrunnsupplýsingar:
Í áliti Samkeppniseftirlitsins er rakið hvernig samkeppni í mjólkuriðnaði hefur horfið eftir lagabreytingu á búvörulögunum árið 2004 sem heimiluðu mjólkurafurðastöðvum samráð, sem í öðrum atvinnugreinum teljast alvarleg lögbrot, og gáfu þeim færi á að sameinast án íhlutunar samkeppnisyfirvalda. Á árinu 2005 voru starfandi níu mjólkursamlög sem önnuðust vinnslu og dreifingu á mjólkurvörum. Sex af samlögunum voru rekin af sameinuðu félagi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og Mjólkurbús Flóamanna. Önnur mjólkursamlög voru Norðurmjólk á Akureyri, Mjólkursamlag KS og Mjólkursamlagið á Ísafirði.

Samkvæmt almennum hagfræðirökum leiðir það af eðli máls að fyrirtæki sem ekki búa við virka samkeppni hafa ekki hvata til að halda niðri kostnaði eða hagræða í rekstri. Það samkeppnislega aðhald sem Mjólka hefur veitt á íslenskum mjólkurmarkaði frá árinu 2005 verður því nú ekki lengur til staðar. Samkeppniseftirlitið hefur þar af leiðandi réttmæta ástæðu til að óttast að mjólkurvörur muni nú hækka í heildsölu og þar með smásölu, a.m.k. þær mjólkurvörur sem áður töldust samkeppnisvörur. Stórir kaupendur mjólkurvara á markaði munu væntanlega að sama skapi eiga erfitt um vik að sækjast eftir jafngóðum kjörum á mjólkurvörum og er samkeppninni frá Mjólku naut við. Þá mun samningsstaða íslenskra mjólkurbænda versna til muna.

Í álitinu er vakin athygli á því að mjólkurafurðir hafa mikið vægi á matvörumarkaði. Af einstökum framleiðslugreinum í matvælaiðnaði er framleiðsla á mjólk og mjólkurafurðum fyrirferðarmest en ekki er óvarlegt að álykta að um 15-20% af neysluútgjöldum vegna matvæla hér á landi fari til kaupa á mjólk- og mjólkurvörum.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins eru ennfremur gerðar alvarlegar athugasemdir við verklag landbúnaðarráðuneytisins við undirbúning lagafrumvarpa, en dæmi eru um að lagafrumvörp sem jafnvel var ætlað að útiloka tiltekna samkeppni frá markaðnum, hafi verið samin í samráði við einn keppinaut án aðkomu þess aðila sem breytingarnar hefðu skaðað. Rakið er nýlegt dæmi um þetta. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru slík vinnubrögð óviðunandi út frá markmiðum samkeppnislaga.