Samkeppniseftirlitið beinir því til stjórnvalda að meta samkeppnisleg áhrif nýrra laga og stjórnvaldsfyrirmæla
Samkeppniseftirlitið hefur í dag beint því til forsætisráðherra að stuðla að því að stjórnvöldum verði gert skylt að framkvæma staðlað samkeppnismat í tengslum við undirbúning að setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla.
Þessi tilmæli koma fram í sérstöku áliti, nr. 2/2009, Samkeppnismat stjórnvalda.
Markmið með samkeppnismati er að fá opinbera aðila til að meta með sjálfstæðum hætti hvaða áhrif tiltekin reglusetning hefur á samkeppnismarkaði. Telja verður að samkeppnismat geti stuðlað að því að markaðir opnist eða haldist opnir og þannig verði komið í veg fyrir óþarfar opinberar aðgangshindranir, þ.e. hindranir nýrra fyrirtækja við að komast inn á nýja markaði eða vaxa við hlið stærri fyrirtækja.
Tillögur Samkeppniseftirlitsins gera ráð fyrir einfaldri aðferð við samkeppnismat. Þannig er notast við fjórar grundvallarspurningar sem skera eiga úr um það hvort ítarlegra samkeppnismat þurfi að fara fram. Ef þess er þörf þá eru sex stöðluð atriði sem þarf að skoða nánar. Með því að samkeppnismat sé staðlað og einfalt eru meiri líkur á því að stjórnvöld nýti sér kosti þess. Þá telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að við endurskoðun á Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa verði bætt við sérstöku kafla um samkeppnismat.
Með því að draga úr samkeppnishamlandi áhrifum opinberrar reglusetningar er verið að viðhalda og auka virka samkeppni. Slík vinnubrögð hjá hinu opinbera stuðla að kraftmiklu atvinnulífi til lengri tíma og eykur ávinning neytenda. Þetta er ekki síst mikilvægt við endurreisn efnahagslífsins.
Undanfarin misseri hafa verið færð ítarlög rök fyrir því að aðgerðir til þess að viðhalda eða efla samkeppni stuðli að hraðari endurreisn atvinnulífsins og séu því rétt viðbrögð við efnahagskreppu. Þennan boðskap m.a. sjá í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi, sem kom út í nóvember 2008 og í sameiginlegri skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna „Competition Policy and Financial Crises – Lessons Learned and the Way Forward“ sem kom út þann 10. september 2009.
Bakgrunnsupplýsingar
Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi, sem kom út í nóvember 2008, var sérstaklega vikið að mikilvægi þess að stjórnvöld leggi mat á áhrif nýrra laga og stjórnvaldsfyrirmæla á samkeppni, í því skyni að afstýra óþarfa samkeppnishindrunum. Þannig var farið yfir málefnið með ítarlegum hætti, m.a. með hliðsjón af erlendum rétti, og gerðar almennar tillögur til stjórnvalda varðandi þetta.
Í kjölfar útgáfu skýrslu Samkeppniseftirlitsins var forsætisráðuneytinu tjáð að Samkeppniseftirlitið hefði hug á því að gefa út álit vegna samkeppnismats á nýjum lögum og reglum og því gefinn kostur að veita umsögn um málefnið. Í athugasemdum var lýst vilja til samstarfs við Samkeppniseftirlitið um leiðir til þess að virk samkeppni yrði varin með tilhlýðilegum hætti við undirbúning löggjafar og endurskoðun gildandi laga.
Samkvæmt samkeppnislögum er Samkeppniseftirlitinu ætlað það hlutverk að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila á markaði. Þetta gerir Samkeppniseftirlitið m.a. með því að beina opinberum álitum til stjórnvalda.