Samkeppniseftirlitið birtir ákvörðun vegna samruna Vodafone og 365 miðla
Óháður kunnáttumaður skipaður
Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun nr. 42/2017 vegna kaupa Fjarskipta hf. (Vodafone) á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. Greint var frá niðurstöðu málsins með frétt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins þann 9. október sl. Var samruninn heimilaður með skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar gerðu tvær sáttir um.
Með fyrrgreindum sáttum skuldbundu samrunaaðilar sig til að ráðast í ákveðnar aðgerðir til að tryggja samkeppni á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði og stuðla að fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Skilyrðunum og markmiðum þeirra er nánar lýst í ákvörðuninni og fyrri fréttatilkynningu, dags. 9. október sl.
Ákvörðunin sem birt er í dag er grundvölluð á umræddum sáttum og tilgangur hennar er að veita samrunaaðilum, keppinautum þeirra, öðrum fyrirtækjum sem telja sig hafa hagsmuna að gæta og öðrum þeim sem hafa áhuga á samrunanum, upplýsingar og skýringar á markmiði þeirra ráðstafana sem fram koma í sáttunum.
Samkeppniseftirlitið vekur jafnframt athygli á því að skipaður hefur verið óháður kunnáttumaður sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með því að skilyrðum í sátt Samkeppniseftirlitsins við Vodafone sé fylgt eftir. Kunnáttumanninum er sérstaklega ætlað það hlutverk að fylgja eftir ákvæðum sáttarinnar sem ætlað er auðvelda innkomu nýrra aðila inn á markaðinn. Nýjum aðilum í skilningi sáttarinnar er heimilt að leita liðsinnis og leiðbeiningar kunnáttumanns í samningaviðræðum við Vodafone.
Óháður kunnáttumaður er Fróði Steingrímsson hdl., frodi@steingrimsson.is.