21.12.2017

Aðgerðir til að koma í veg fyrir samræmt miðaverð á leiki í Pepsideild karla í knattspyrnu

Samkeppniseftirlitið hefur nýtt heimild samkeppnislaga og gert hjálagða sátt við Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ). Með umræddri sátt er leitt til lykta mál er hófst í maí sl. og varðar birtingu á lágmarksverði fyrir miða á leiki í Pepsideild karla í knattspyrnu í Handbók leikja, sem útgefin er af KSÍ.

Með sáttinni er komið í veg fyrir háttsemi sem fer gegn samkeppnislögum og var til þess fallin að samræma miðaverð á knattspyrnuleiki. Um leið er tryggt að háttsemin endurtaki sig ekki og stuðlað að fræðslu til handa starfsmönnum og stjórnendum KSÍ sem og aðildarfélögum sambandsins um sátt þessa og reglur samkeppnisréttar.

Íþróttir eru hluti af daglegu lífi fjölda einstaklinga. Íþróttastarfsemi er hins vegar að mörgu leyti ólík flestri annarri atvinnustarfsemi þrátt fyrir að efnahagslegur hluti íþrótta fari ört vaxandi. Þegar starfsemi íþróttafélaga eða samtaka íþróttafélaga er af slíkum efnahagslegum toga er ljóst að um þau gilda ákvæði samkeppnislaga.  Með sátt við Samkeppniseftirlitið hefur KSÍ skuldbundið sig til að gera breytingar á skipulagi og háttsemi samtakanna og til að vera í forsvari fyrir bætta samkeppnishætti innan knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi. Að mati Samkeppniseftirlitsins voru ekki forsendur til að beita stjórnvaldssektum í málinu.