Kynning fyrir bæjarráð Kópavogs um samkeppni og meðhöndlun úrgangs
Þann 15. mars 2018 var Samkeppniseftirlitinu boðið á fund bæjarráðs Kópavogs til að kynna sameiginlega skýrslu samkeppniseftirlitanna á Norðurlöndunum um samkeppni við meðhöndlun úrgangs. Á fundinum var jafnframt farið yfir fyrri aðkomu stofnunarinnar að málum sem varða samkeppni við meðhöndlun úrgangs og uppbyggilegar umræður áttu sér stað. Samkvæmt samkeppnislögum fer Samkeppniseftirlitið með svokallað málsvarahlutverk sem felst í því að kynna kosti samkeppni fyrir stjórnvöldum, fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum. Í skýrslunni eru lagðar til leiðir fyrir sveitarfélög til að nýta sér kosti samkeppninnar sem tæki til að lækka kostnað íbúa af meðhöndlun úrgangs, styðja við nýsköpun og til að ná markmiðum um umhverfisvernd.
Samkeppniseftirlitið hefur jafnframt kynnt skýrsluna, m.a. fyrir borgarráði Reykjavíkur, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og á haustráðstefnu Fagráðs um endurnýtingu og úrgang.
Glærukynningu Samkeppniseftirlitsins af fundinum má nálgast hér.
Nálgast má skýrsluna, samantekt hennar á íslensku og frétt um málið hér .