Auknar heimildir til íhlutunar
Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála vegna yfirtöku NBI á Teymi
- Samkeppniseftirlitið hefur heimildir til að setja skilyrði um að fyrirtæki sem yfirtekin eru af bönkum sem tryggja sjálfstæði þeirra og skilyrði um sölu þeirra innan eðlilegs tíma, enda þótt yfirtakan feli ekki í sér skörun á mörkuðum eða markaðsráðandi stöðu. Óvenjulegar aðstæður sem nú ríkja í atvinnulífinu kalla á þessar heimildir að mati áfrýjunarnefndar.
- Úrskurðurinn veitir Samkeppniseftirlitinu auknar heimildir til að fylgja eftir nýútgefnu umræðuskjali um banka og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja.
Í október sl. tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun vegna samruna Vestia hf. (dótturfélags NBI banka, þ.e. Landsbankans) og Teymis hf. (móðurfélags t.d. Vodafone). Var ekki talin heimild samkvæmt samkeppnislögum til þess að grípa til íhlutunar í samrunann þar sem engin samkeppnisleg skörun væri á milli þessara fyrirtækja. Þá var ekki í málinu gerð athugasemd við fjárhagslega endurskipulagningu Teymis. Samrunaákvæði samkeppnislaga heimila Samkeppniseftirlitinu að ógilda eða setja samruna skilyrði þegar sannað er að hann raski samkeppni.
Síminn hf. kærði fyrrgreinda ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Hélt Síminn því fram að þar sem Teymi væri komið í eigu dótturfélags NBI hf. og skuldir fyrirtækisins hefðu verið afskrifaðar leiddi það til þess að Teymi og dótturfélög væru kominn í markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamörkuðum og mörkuðum fyrir upplýsingatækni. Af því leiddi að samruninn raskaði samkeppni með umtalsverðum hætti. Krafðist Síminn þess að umræddur samruni yrði ógiltur eða honum sett skilyrði.
Í úrskurði áfrýjunarnefndar sem birtur var 22. janúar sl. var staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki væri lagagrundvöllur til þess að ógilda samrunann. Þá taldi áfrýjunarnefndin að „samkeppnisreglur megi ekki takmarka möguleika fyrirtækja á fjárhagslegri endurskipulagningu með samningum við kröfuhafa, þegar skuldir eru að sliga rekstur með þeim hætti að hann færi á annað borð í þrot.“ Var ekki fallist á það að samruninn leiddi til markaðsráðandi stöðu Teymis.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi hins vegar að samkeppnisleg vandamál geti leitt af langvarandi eignarhaldi banka á atvinnufyrirtækjum. Hinar óvenjulegu aðstæður sem nú ríki veiti heimild samkvæmt samkeppnislögum til setja yfirtöku banka á fyrirtækjum í óskyldum rekstri skilyrði til þess að hin yfirteknu fyrirtæki starfi eins sjálfstætt og unnt er frá bönkunum. Bankarnir muni síðan selja fyrirtækin innan eðlilegs tíma. Á þessum grunni var ákvörðun Samkeppnis-eftirlitsins felld úr gildi. Af þessum úrskurði leiðir að Samkeppniseftirlitið mun taka samruna Vestia hf. og Teymis fyrir að nýju.
Þann 8. desember 2009 birti Samkeppniseftirlitið umræðuskjal um banka og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Í því er fjallað um samkeppnisleg álitaefni sem tengjast m.a. eignarhaldi banka á fyrirtækjum sem lent hafa í skuldavanda. Umræddur úrskurður áfrýjunarnefndar er mikilvægur í þessu samhengi. Túlkun nefndarinnar felur í sér að heimildir samkvæmt samkeppnislögum til að grípa inn í samruna með bindandi hætti séu rýmri en Samkeppniseftirlitið hafði áður talið. Eftirlitið hafi þannig aukna möguleika til að taka á þeim samkeppnislegu vandamálum sem tengjast eignarhaldi bankanna sem lýst er í umræðuskjalinu frá 8. desember sl.
Sjá nánar úrskurð Áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 19/2009.