Íslandspósti gert skylt að semja við Póstmarkaðinn ehf.
Með bráðabirgðaákvörðun í dag hefur Samkeppniseftirlitið mælt fyrir um að Íslandspósti sé skylt að semja við Póstmarkaðinn um móttöku og dreifingu pósts í samræmi við gjaldskrá Íslandspósts fyrir stórnotendur og skilmála hennar. Skulu viðskiptaskilmálar vera almennir þannig að fyrirtæki sem eiga í samskonar viðskiptum við Íslandspóst njóti sömu kjara.
Samkeppniseftirlitið kemst í bráðabirgðaákvörðun sinni að þeirri niðurstöðu að sennilegt sé að Íslandspóstur hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína í samskiptum sínum við Póstmarkaðinn, þegar síðarnefnda fyrirtækið leitaði samninga víð Íslandspóst. Er talið í ákvörðuninni að Íslandspóstur hafi með skilmálum sínum gagnvart Póstmarkaðnum mismunað aðilum með ólögmætum hætti. Jafnframt er talið að skilmálarnir geti falið í sér sölusynjun. Þykir nægilega í ljós leitt að um hafi verið að ræða óeðlileg viðbrögð markaðsráðandi fyrirtækis við mögulegri samkeppni.
Að mati Samkeppniseftirlitsins má ætla að um sé ræða alvarleg brot sem eru til þess fallin að raska samkeppni. Einnig er nægilega líklegt að bið eftir endanlegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins geti leitt til röskunar á samkeppni. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að beina þeim fyrirmælum til Íslandspósts að semja við Póstmarkaðinn á tilteknum forsendum.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gildir til 1. ágúst 2010. Ef ekki hefur verið tekin ákvörðun í málinu innan þess frests verður tekin afstaða til þess hvort nauðsynlegt sé að framlengja þessa bráðabirgðaákvörðun til þess að markmið hennar náist.
Bakgrunnsupplýsingar
Þann 27. janúar 2010 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit á starfstöðvum Íslandspósts hf. vegna meintra brota á samkeppnislögum og ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.
Í ákvæði 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga kemur fram að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál ef: „...sennilegt þykir að sú háttsemi eða þær aðstæður sem til athugunar eru fari gegn ákvæðum samkeppnislaga eða ákvörðunum teknum á grundvelli þeirra ...“. Einnig er það skilyrði að málið þoli ekki bið.
Sjá nánar ákvörðun til bráðabyrgða nr. 1/2010.