1.6.2018

Alvarleg brot Byko á samkeppnislögum staðfest og sekt hækkuð

 Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í dag staðfest að Byko hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum og hækkað álagða sekt í 400 mkr. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði talið 65 mkr. sekt hæfilega.

Aðdragandi málsins er sá að í maí 2015 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Var um að ræða verðsamráð á mikilvægum byggingavörum. Málið hófst þegar Múrbúðin snéri sér til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir tilraunum Byko og gömlu Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ólögmæta samráði. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 mkr. sekt á Norvik, móðurfélag Byko.

Norvik og Byko kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í október 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Byko hefði tekið þátt í ólögmætu verðsamráði og brotið gegn samkeppnislögum. Hins vegar féllst nefndin ekki á að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin. Einnig taldi nefndin að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar. Taldi nefndin því hæfilegt að lækka sekt Byko úr 650 mkr. í 65 mkr.

Samkvæmt samkeppnislögum er Samkeppniseftirlitinu falið að meta hvort þeir almannahagsmunir, sem felast í virkri samkeppni, kalli á að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála séu bornir undir dómstóla. Jafnframt er Samkeppniseftirlitinu falið að beita samkeppnisreglum EES-samningsins. Samkeppniseftirlitið höfðaði því mál fyrir héraðsdómi þar sem eftirlitið byggði á því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði túlkað EES-samninginn með röngum hætti. Einnig hefði nefndin ekki lagt rétt mat á alvarleika brota Byko og sekt nefndarinnar gæti ekki tryggt fullnægjandi varnaðaráhrif. Slík áhrif eru mikilvæg til að stuðla að því að fyrirtæki raski ekki samkeppni, neytendum til tjóns. Samkeppniseftirlitið krafðist þess að sekt Byko yrði hækkuð.

Með dómi sínum í dag féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á að brot Byko hefðu verið alvarleg og hækkaði sekt félagsins í 400 mkr. Að mati héraðsdóms geti það ekki „verið nokkrum vafa undirorpið að um var að ræða samráð í skilningi samkeppnisréttar." Með háttsemi sinni hafi félögin haldið uppi vöruverði og bætt framlegð sína á kostnað viðskiptavina. Í dómnum segir að sekt áfrýjunarnefndar hafi verið „of lág. Hér hefur helst þýðingu að um alvarlegt brot var að ræða á markaði milli markaðsráðandi fyrirtækja sem framin voru í þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirra á kostnað neytenda. Var með því brotið gegn mikilvægum hagsmunum þorra almennings." Einnig féllst dómurinn á það að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin.

Bakgrunnsupplýsingar:

Brot þessa máls tengjast ekki núverandi rekstraraðilum Húsasmiðjunnar. Rannsókn á þætti Húsasmiðjunnar í málinu lauk í júlí 2014. Með sátt, dags. 9. júlí 2014, viðurkenndi fyrrum rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf., að gamla Húsasmiðjan hefði átt í ólögmætu samráði við Byko.

Í samræmi við lögbundið hlutverk sitt kærði Samkeppniseftirlitið til lögreglu stjórnendur og starfsmenn Byko og gömlu Húsasmiðjunnar fyrir þátt sinn í samráðinu. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 voru átta starfsmenn fyrirtækjanna sakfelldir.

Eftirlitsstofnun EFTA taldi þetta mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur „vekja mikilvægar spurningar varðandi túlkun EES-réttar." Beitti hún í fyrsta sinn hér á landi heimild til þess að leggja fram athugasemdir í málum fyrir dómstólum EFTA-ríkjanna. Sjá nánar hér:

http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/competition/nr/2690