19.2.2010

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestir 315 mkr. stjórnvaldssekt á Haga

heradsdomur_reykjavik_logo_549331046

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 19. desember 2008 var komist að þeirri niðurstöðu að Hagar (sem reka m.a. verslunarkeðjuna Bónus) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á matvörumarkaði. Taldi Samkeppniseftirlitið að brot Haga á samkeppnislögum hafi verið til þess fallin að valda atvinnulífinu og almenningi miklu samkeppnislegu tjóni. Þessi ákvörðun var staðfest af áfrýjunarnefnd samkeppnismála þann 4. mars 2009.

Hagar stefndu Samkeppniseftirlitinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og kröfðust þess að framangreind niðurstaða yrði felld út gildi eða sektir felldar niður. Með dómi sínum í dag hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur öllum kröfum Haga í málinu. Í dóminum kemur fram það mat héraðsdóms að brot Haga hafi verið sérstaklega alvarleg.

Fram kemur í málinu að Hagar hafa yfirburði í markaðshlutdeild á matvörumarkaði. Á landinu öllu var hlutdeild Haga yfir 50%. Þessi hlutdeild Haga hefur vaxið mikið undanfarin ár á kostnað annarra keppinauta. Á höfuðborgarsvæðinu var félagið með um 60% markaðshlutdeild. Markaðshlutdeild keppinautanna var mun minni. Í ljósi m.a. þessarar hlutdeildar var talið að Hagar væru í markaðsráðandi stöðu.

Brot Haga á samkeppnislögum var talið felast í svonefndri undirverðlagningu sem félagið greip til á árunum 2005 og 2006. Í undirverðlagningu felst í aðalatriðum að markaðsráðandi fyrirtæki selur vörur undir kostnaðarverði. Getur slík óeðlileg verðlagning m.a. leitt til þess að minni keppinautar hrökklist út af markaðnum eða dragi úr verðsamkeppni við hið ráðandi fyrirtæki. Jafnvel þó neytendur njóti þess til skamms tíma að fá vöru eða þjónustu á mjög lágu verði geturóeðlileg verðlækkun markaðsráðandi fyrirtækis valdið röskun á samkeppni. Slík röskun leiðir til lengri tíma litið til fækkunar keppinauta, hærra verðs til neytenda, minni þjónustu eða gæða og til þess að valkostum neytenda fækkar.

Brot Haga áttu sér stað í svonefndu verðstríði lágvöruverðsverslana sem hófst í lok febrúar 2005 þegar Krónan í eigu Kaupáss kynnti allt að 25% verðlækkun á algengustu flokkum dagvara. Hagar misnotuðu markaðsráðandi stöðu sína með því að selja mjólk og mjólkurvörur undir kostnaðarverði í verslunum Bónuss í langan tíma. Voru helstu mjólkurafurðir seldar með stórfelldu rtapi og leiddi þetta til þess að verslanir Bónuss voru í heild reknar með tapi. Það var því mat Samkeppniseftirlitsins að í verðlagningunni fælist ólögmæt undirverðlagning og að háttsemin væri til þess fallin að viðhalda og styrkja með óeðlilegum hætti stöðu Haga á markaðnum fyrir sölu á dagvörum í matvöruverslunum. Jafnframt sýndi rannsókn Samkeppniseftirlitsins að brotin voru umfangsmikil. Aðgerðir Haga voru til þess fallnar að útiloka helstu keppinauta, s.s. lágvöruverðsverslanir í eigu Kaupáss (Krónan) og Samkaupa (Nettó og Kaskó) frá samkeppni og þar með veikja þau fyrirtæki sem keppinauta á markaðnum. Með vísan til alvarlegs eðli brots Haga og mikilla hagsmuna neytenda af samkeppni á matvörumarkaði taldi Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála að sekt að fjárhæð 315 mkr. væri hæfileg.

Hagar skutu úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi eða sektir stórlega lækkaðar. Með dómi sínum í dag hefur Héraðsdómur staðfest úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Telur dómurinn að Hagar hafi með þessum aðgerðum skaðað hagsmuni neytenda og fyrirtækið hafi mátt vita að þær væru ólögmætar. Fellst dómurinn á að 315 mkr. stjórnvaldssekt hafi verið hæfileg viðurlög. Er þetta hæsta sekt sem lögð hefur verið á hér landi vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Héraðsdómur dæmdi Haga til greiðslu málskostnaðar, samtals 1.750.000 kr.

Sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.