15.10.2018

Kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf. á Póstmiðstöðinni ehf. Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða vegna framlagðrar tillögu samrunaaðila að skilyrðum vegna samrunans

Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf. á Póstmiðstöðinni ehf., en með samrunanum hyggjast samrunaaðilar sameina dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst undir fyrirtækinu Póstmiðstöðinni sem þeir hyggjast reka sem dótturfélag.  

 Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins og Torg ehf. dótturfélag 365 miðla er útgáfufélag Fréttablaðsins. Um er að ræða stærstu dagblöð landsins. Póstmiðstöðin er félag sem starfar á sviði dreifingar, m.a. dagblaða og fjölpósts. Póstmiðstöðin er dreifingaraðili Fréttablaðsins og annarra miðla. Landsprent ehf. er dótturfélag Árvakurs og hefur m.a. sinnt dreifingu Morgunblaðsins og annarra miðla.

Samrunaaðilar hafa lýst sig reiðubúna til þess að tryggja aðgang þriðju aðila að dreifikerfi Póstmiðstöðvarinnar. Hefur Samkeppniseftirlitið kynnt samrunaaðilum frummat sitt vegna samrunans og gefið þeim færi á því að leggja til skilyrði sem myndu leysa þau samkeppnislegu vandkvæði sem annars leiða af samrunanum. Hjálagðar tillögur samrunaaðila að skilyrðum sem unnt væri að setja samrunanum bárust þann 12. október 2018.

Samkeppniseftirlitið leitar nú sjónarmiða hagsmunaaðila við tillögum samrunaaðila. Með tilkynningu þessari kallar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum allra aðila sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, t.d. núverandi viðskiptavina framangreindra dreifingaaðila, keppinauta fjölmiðla Árvakurs og 365 miðla og öðrum þeim sem eiga einhvers konar viðskipti á þessu sviði eða sjá á markaðnum viðskiptatækifæri. Þá er einnig kallað eftir sjónarmiðum neytenda.

Áréttað skal að Samkeppniseftirlitið hefur ekki tekið afstöðu til framlagðra tillagna samrunaaðila.   

Til nánari kynningar á málinu veitir Samkeppniseftirlitið aðgang að eftirfarandi gögnum:

Bréfi Samkeppniseftirlitsins til hagsmunaaðila, dags. 15. október 2018, þar sem nánari grein er gerð fyrir rannsókn málsins og tillögum samrunaaðila. 

Tillögu samrunaaðila að skilyrðum vegna samrunans frá 12. október 2018 .

Óskað er eftir því að sjónarmið berist eigi síðar en 22. október nk. Aðilum er gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, í bréfi, tölvupósti (samkeppni@samkeppni.is) eða síma (585-0700).