Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Samkaupa hf. á eignum 12 verslana Basko verslana ehf.
Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Samkaupa hf. á eignum 12 verslana Basko verslana ehf. sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu.
Kaupin voru upphaflega tilkynnt Samkeppniseftirlitinu þann þann 25. júní 2018, en sú tilkynning tók einnig til tveggja verslana Basko, annars vegar í Reykjanesbæ og hins vegar á Akureyri. Tók rannsókn málsins einkum til samkeppnislegra staðbundinna áhrifa samrunans á þeim svæðum.
Með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, tilkynntu Samkaup að félagið hefði þann dag, ásamt Basko, undirritað viðauka við kaupsamninginn frá 25. júní 2018. Með viðaukanum hefðu samningsaðilar samþykkt að tvær verslanir yrðu undanskildar kaupunum og féllu því ekki undir hið selda. Annars vegar væri um að ræða verslun Iceland við Hafnargötu 51-55 í Reykjanesbæ og hins vegar verslun Iceland í Kaupangi við Mýrarveg á Akureyri.
Vegna framangreinds viðauka við kaupsamning samrunaaðila er Samkeppniseftirlitinu nú kleift að taka afstöðu til kaupa Samkaupa á 12 verslunum Basko á höfuðborgarsvæðinu. Gerir Samkeppniseftirlitið ekki athugasemdir við þau kaup. Ekki hefur hins vegar verið tekin afstaða til kaupa Samkaupa á verslunum Basko í Reykjanesi og á Akureyri.