29.11.2018

Samkeppniseftirlitið samþykkir kaupendur að framboðnum eignum Haga hf. og Olíuverzlunar Íslands hf. vegna samruna félaganna 

Samkeppniseftirlitið heimilaði kaup Haga hf. á Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) og fasteignafélaginu DGV hf. á grundvelli sáttar við Haga þann 11. september 2018. Samruninn var háður ítarlegum skilyrðum, sem ætlað var að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum sem af honum leiddu. Þar á meðal skuldbundu Hagar sig til að selja þrjár dagvöruverslanir Haga, dagvöruhluta verslunar Olís í Stykkishólmi og fimm eldsneytisstöðvar Olís. Sáttina og nánari umfjöllun um hana má finna í frétt Samkeppniseftirlitsins frá 11. september 2018.

Framkvæmd samruna Haga og Olís var háð því skilyrði að hæfur kaupandi fyndist að öllum framboðnum eignum. Er í sáttinni kveðið á um að kaupendur uppfylli tiltekin skilyrði sem fela m.a. í sér að þeir séu til þess fallnir og líklegir til að veita Högum og öðrum keppinautum umtalsvert samkeppnislegt aðhald.

Í tengslum við sáttina gerðu Hagar annars vegar samning við Atlantsolíu um kaup á umræddum eldsneytisstöðvum og hins vegar samning við Ísborg ehf. um kaup á dagvöruverslununum þremur, auk dagvörusölu Olís í Stykkishólmi.

Á grundvelli fyrrgreindrar sáttar var óháðum kunnáttumanni falið að meta þá kaupendur eignanna sem Hagar hafa samið við. Mat kunnáttumaðurinn báða fyrrgreinda kaupendur hæfa.

Að undangenginni frekari athugun féllst Samkeppniseftirlitið á að Atlantsolía uppfyllti skilyrði sáttarinnar. Í ljósi álits kunnáttumanns og ákveðinna annarra atriða sem vörðuðu hæfi Ísborgar sem mögulegs kaupanda óskaði Samkeppniseftirlitið ítarlegra gagna frá fyrirtækinu um ýmis atriði sem tengjast hæfismatinu. Í kjölfar þeirrar athugunar komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Ísborg uppfyllti ekki kröfur um hæfi kaupanda eignanna, a.m.k. að svo stöddu.

Í kjölfarið var óskað á ný eftir mati Samkeppniseftirlitsins á hæfi Ísborgar. Réðust aðilar í tilteknar endurbætur á grundvelli þeirra athugasemda sem fram komu í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Í ljósi þeirra lagfæringa sem gerðar hafa verið af hálfu samningsaðila, sem og viðbótarskuldbindinga þeirra, hefur Samkeppniseftirlitið nú metið Ísborg hæfan kaupanda í skilningi sáttarinnar.

Eitt þeirra atriða sem Samkeppniseftirlitið og óháður kunnáttumaður tóku til skoðunar var óhæði Ísborgar gagnvart Högum, einkum vegna tengsla fyrirsvarsmanns Ísborgar við óbeinan hluthafa í Högum. Að mati Samkeppniseftirlitsins girða umrædd tengsl ekki fyrir viðskiptin, m.t.t. til þeirra forsendna sem þau eru reist á.

Í ljósi framangreinds er samrunaaðilum nú heimilt að framkvæma fyrrgreindan samruna Haga og Olís.

Samkeppniseftirlitið mun birta ákvörðun vegna málsins, þar sem gerð verður nánari grein fyrir forsendum málsins, þar á meðal fyrrgreindu mati á hæfi kaupenda.