Evrópskt samstarf um vettvangsrannsóknir og leit í tölvugögnum
Í dag og á morgun stendur yfir í Reykjavík samstarfsfundur evrópskra samkeppniseftirlita þar sem fjallað er um vettvangs- og upplýsingatæknirannsóknir (IT forensics). Um er að ræða reglulegt samstarf sem stýrt er af vinnuhópi sem allar systurstofnanir Samkeppniseftirlitsins í Evrópu eiga sæti í. Tilgangur vinnunnar er að auka og samræma þekkingu þessara stofnana á upplýsingatæknirannsóknum og framkvæmd hverskyns vettvangsrannsókna, s.s. húsleita. Samkeppniseftirlitið hefur verið virkur þátttakandi í þessum hópi og leitt ýmsa vinnu sem átt hefur sér stað innan vébanda hans.
Á sjötta tug fulltrúa frá tæplega þrjátíu stofnunum þar með talið EFTA og ESB taka þátt í fundinum hér á landi.
Samkeppniseftirlitið lítur á samstarf við erlendar systurstofnanir sem mjög mikilvægan hluta af starfsemi sinni þar sem upplýsingar og reynsla annars staðar frá getur oft á tíðum reynst stofnuninni ómetanleg við úrlausn verkefna.