N1 dregur tilkynningu á samruna við Festi til baka
Samkeppniseftirlitið hefur undanfarið haft til rannsóknar kaup N1 hf. á Festi hf. á grundvelli samrunatilkynningar sem send var eftirlitinu 31. október 2017. Var rannsókn málsins á lokastigi og ákvörðunar að vænta í dag.
Ekki kemur hins vegar til ákvörðunar í dag, þar sem N1 hefur nú ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu sína. Afturköllun á samrunatilkynningu er eðli máls samkvæmt einhliða ákvörðun N1 sem Samkeppniseftirlitið tekur ekki afstöðu til. Felur afturköllunin í sér að umræddu máli er lokið án ákvörðunar og að samruni N1 og Festi getur ekki að óbreyttu komið til framkvæmda. N1 hefur hins vegar upplýst Samkeppniseftirlitið um að félagið hyggist tilkynna aftur um samrunann. Hefur N1 boðað að í hinu nýja máli muni N1 leggja fram tillögur að skilyrðum sem ætlað er að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið telur að stafað gætu af samrunanum.
Rannsóknin
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samrunanum hefur verið umfangsmikil. Með frétt sem birt var á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins 23. nóvember 2017 var gerð sérstök grein fyrir áherslum eftirlitsins við rannsókn málsins.
Samkeppniseftirlitið birti samrunaaðilum rökstutt frummat sitt í andmælaskjali þann 24. febrúar 2018, sbr. tilkynningu N1 í kauphöll þann 25. febrúar sl. Samkvæmt því var talið að alvarlegar samkeppnishindranir leiddu af samrunanum sem bregðast yrði við, annað hvort með ógildingu samrunans eða skilyrðum sem eyddu umræddum hindrunum. Var því beint til N1 að snúa sér hið fyrsta til Samkeppniseftirlitsins ef það óskaði eftir sáttarviðræðum og teldi að skilyrði gætu afstýrt samkeppnishömlum. Ella gæti reynst torvelt að framkvæma nauðsynlega rannsókn til að meta hvort hugsanleg skilyrði væru fullnægjandi.
Hinn 5. mars 2018 óskaði N1 eftir að ganga til sáttarviðræðna við Samkeppniseftirlitið vegna samrunans en tilkynnti jafnframt að félagið hygðist setja fram athugasemdir við frummat eftirlitsins. Tilkynnti félagið um þetta í kauphöll þann 7. mars sl.
Að fengnum athugasemdum félagsins við frummat eftirlitsins, sem bárust þann 12. mars, varð hins vegar ljóst að ekki væru forsendur til sáttarviðræðna. Þannig lýstu samrunaaðilar sig ósammála öllum efnisþáttum í frummati Samkeppniseftirlitsins, auk þess sem N1 taldi ástæðulaust að lögð yrðu skilyrði á félagið vegna samrunans. Þau skilyrði sem félagið lagði þó til gátu ekki, að mati Samkeppniseftirlitsins, afstýrt þeim samkeppnishömlum sem lýst hafði verið í andmælaskjalinu. Af þessum sökum tilkynnti Samkeppniseftirlitið félaginu að forsendur brystu til viðræðna um sátt í málinu.
Í framhaldinu réðist Samkeppniseftirlitið í viðbótarrannsókn á tilteknum þáttum málsins. Frumniðurstaða þeirrar rannsóknar, sem kynnt var samrunaaðilum, staðfesti í meginatriðum frummat eftirlitsins um þær samkeppnishindranir sem samruninn hefði í för með sér.
Tillögur að sátt lagðar fram við lok frests
Undir lok hins lögbundna frests, annars vegar þann 9. apríl og hins vegar þann 12. apríl, setti N1 loks fram tillögur að skilyrðum sem félagið taldi að gætu aukið samkeppni og orðið andlag sáttar í málinu. Gerði Samkeppniseftirlitið N1 grein fyrir því að umræddar tillögur væru of seint fram komnar, enda væri einsýnt að ekki væri mögulegt að ráðast í fullnægjandi rannsókn á áhrifum skilyrðanna innan hins lögboðna frests. Auk þess væri verulegt álitamál hvort skilyrðin sem N1 lagði til þann 12. apríl væru fullnægjandi til að eyða þeim samkeppnishindrunum sem samruninn hefði í för með sér. Boðað var að Samkeppniseftirlitið myndi taka ákvörðun í málinu innan lögmæltra fresta málsins.
Með afturköllun samrunatilkynningarinnar kemur hins vegar ekki til ákvörðunar í málinu í dag. Í framhaldi af nýrri samrunatilkynningu sem N1 hefur boðað mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til tillagna um skilyrði sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum. Verður meðferð þess máls hraðað eftir því sem kostur er.
Bakgrunnsupplýsingar:
Reglum samkeppnislaga um samruna er ætlað að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna fyrirtækja, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist. Samkeppnisyfirvöldum gefst aðeins eitt tækifæri samkvæmt samrunareglum samkeppnislaga til að grípa til íhlutunar vegna samkeppnishamlna sem leiða af samruna.
Samrunamál hefjast þegar viðkomandi fyrirtæki hafa ákveðið að renna saman. Ber aðilum samrunans þá að senda Samkeppniseftirlitinu tilkynningu um samrunann og í henni skal veita upplýsingar um atriði sem skipta máli varðandi mat á áhrifum samrunans. Þegar fullnægjandi tilkynning berst veita samkeppnislög Samkeppniseftirlitinu 25 virka daga til að leggja mat á samrunann. Ef samruni virðist skapa samkeppnisleg vandamál er unnt að framlengja frestinn um allt að 90 virka daga. Eftir að það lögmælta tímamark er liðið brestur Samkeppniseftirlitinu heimild til íhlutunar vegna samruna.
Framangreindir frestir eru settir til hagsbóta fyrir viðskiptalífið. Rannsóknir samrunamála hefjast að frumkvæði fyrirtækja og þau geta bundið enda á þær með afturköllun samrunatilkynningar. Telji samrunaaðilar að unnt sé að afstýra mögulegum samkeppnishindrunum með því að setja samruna skilyrði ber þeim að setja slíkar tillögur fram, nægjanlega snemma til að unnt sé að leggja mat á þær.