11.9.2018

Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Haga hf. á Olíuverzlun Íslands hf., en setur samrunanum skilyrði til þess að vernda samkeppni á dagvöru- og eldsneytismörkuðum

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað kaup Haga hf. á Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) og fasteignafélaginu DGV hf. Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Þannig skuldbinda Hagar sig til aðgerða til þess að bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

 

Rannsókn málsins leiddi í ljós að samruninn, án skilyrða, væri til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti. Nánar tiltekið var það mat eftirlitsins að samruninn myndi styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði, leiða til staðbundinnar röskunar á samkeppni á tilteknum landssvæðum, hafa skaðleg áhrif á heildsölu- og birgðastigi og hafa í för með sér aukin og skaðleg eignatengsl á milli keppinauta á bæði eldsneytis- og dagvörumarkaði.

 

Með sáttinni skuldbinda samrunaaðilar sig til aðgerða sem miða að því að efla og vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum og bregðast við framangreindri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.

 

Nánar tiltekið skuldbinda Hagar sig m.a. til eftirfarandi aðgerða:

 

1.    Sala dagvöruverslana: Hagar skuldbinda sig til að selja frá sér þrjár dagvöruverslanir, þ.e. verslanir Bónuss að Hallveigarstíg, Smiðjuvegi og í Faxafeni. Með sölunni er m.a. brugðist við þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að samruninn styrki markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði.

 

2.    Sala eldsneytisstöðva: Hagar skuldbinda sig til að selja fimm eldsneytisstöðvar (tvær þjónustustöðvar og þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar), sem nú eru reknar undir merkjum Olís og ÓB. Með sölunni er m.a. brugðist við þeim skaðlegum áhrifum sem samruninn felur í sér vegna aukinna eignatengsla á milli keppinauta á eldsneytismarkaði, sbr. einnig 6. tl. hér að neðan.

 

3.    Sala dagvörusölu Olís í Stykkishólmi og sama dagvöruverð hjá Olís um allt land: Til þess að bregðast við skaðlegum staðbundnum áhrifum samrunans á dagvörumarkaði á tilteknum landssvæðum skuldbinda samrunaaðilar sig annars vegar til þess að hafa sama verð á dagvöru á eldsneytisstöðvum sínum um land allt og hins vegar til þess að selja rekstur og eignir Olís verslunarinnar Aðalgötu 2 Stykkishólmi sem tengjast dagvörusölu.

 

4.    Bann við framkvæmd samrunans: Við rannsókn málsins leitaði Samkeppniseftirlitið ýmissa upplýsinga og sjónarmiða vegna mats á tillögum Haga að skilyrðum. Leiddi sú rannsókn til þeirrar niðurstöðu að vafi væri um hvort tillögur Haga væru fullnægjandi. Nánar tiltekið er um ræða vafa um sölu framboðinna eigna til aðila sem uppfylla skilyrði sáttarinnar um hæfi kaupenda (13. gr.). Af þeim sökum er heimild til að framkvæma samrunann háð því skilyrði að hæfur kaupandi finnist að framboðnum eignum. Slíkt skilyrði er þekkt leið í samkeppnisrétti til þess að bregðast við vafa um söluvænleika framboðinna eigna (e. Up-front buyer).

 

Framangreint þýðir með öðrum orðum að Högum er óheimilt að taka yfir eignir Olís fyrr enn liggja fyrir samningar við öfluga kaupendur sem uppfylla skilyrði sem sett eru í sáttinni.

 

5.    Aukið aðgengi endurseljenda að heildsölu eldsneytis og aukið aðgengi að þjónustu Olíudreifingar hf. (ODR): Hagar skuldbinda sig til þess að selja nýjum endurseljendum sem eftir því leita allar tegundir eldsneytis í heildsölu á viðskiptalegum grunni, með nánar tilgreindum skilmálum. Er Högum skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim sem kaupa eldsneyti í heildsölu. (Sjá nánar V. kafla sáttarinnar.) 

Jafnframt skuldbinda Hagar sig til þess, sem annar aðaleigenda ODR, að grípa til tiltekinna aðgerða til þess að tryggja að öll þjónusta ODR tengd eldsneyti sé veitt þeim aðilum sem eftir henni óska án mismununar og á sanngjörnum og eðlilegum kjörum (Sjá nánar VI. kafla sáttarinnar.)

 

Með þessum aðgerðum er brugðist við samkeppnisröskun sem leiðir af samþættingu eldsneytis- og dagvörufyrirtækja, þ.e. milli Haga og Olís, og rudd braut fyrir virkari samkeppni á eldsneytismarkaði.

 

Skilyrðin varðandi ODR eru tengd þeim skilyrðum sem sett voru með sátt Samkeppniseftirlitsins við N1 hf. vegna samruna félagsins við Festi hf. Gangi báðir samrunarnir eftir skuldbinda fyrirtækin sem eigendur ODR sig til þess að opna aðgengi fyrir þriðju aðila að þjónustu ODR.

 

6.    Samkeppnislegt sjálfstæði Haga: Hagar skuldbinda sig til þess að grípa til tiltekinna aðgerða til þess að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Haga, s.s. sjálfstæði stjórnar og lykilstarfsmanna, aðskilnað hagsmuna og tiltekið verklag sem miðar að þessu. (Sjá nánar VII. kafla sáttarinnar.)


Með þessum aðgerðum er m.a. brugðist við skaðlegum áhrifum eignatengsla á dagvöru- og eldsneytismarkaði, en sem kunnugt er eiga sömu aðilar verulega eignarhluti í fleiri en einum keppinaut á þessum mörkuðum.


Í sáttinni er boðað, til viðbótar þessum aðgerðum, að Samkeppniseftirlitið muni eiga frekari viðræður við stærstu hluthafa Haga sem jafnframt eiga umtalsverða eignarhluti í keppinautum og taka nánari afstöðu til þess hvort þörf sé íhlutunar gagnvart þeim, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, með hliðsjón af framkvæmd sáttarinnar.

 

Til viðbótar framangreindu hefur Samkeppniseftirlitið gert sátt við FISK-Seafood ehf. og móðurfélag þess Kaupfélag Skagfirðinga (KS) um að FISK-Seafood selji eignarhlut sinn í sameinuðu félaga niður undir ákveðið mark í kjölfar samrunans, gangi hann eftir. Ástæða þessara skuldbindinga er að bregðast við eignatengslum á milli KS og Haga í kjölfar samrunans en KS er bæði keppinautur Haga og mikilvægur birgi félagsins.

 

7.    Eftirlit og umsjón óháðs aðila: Á grundvelli sáttarinnar verður óháður kunnáttumaður skipaður sem ætlað er að fylgja eftir og hafa eftirlit með þeim aðgerðum og fyrirmælum sem kveðið er á um í sáttinni. (Sjá nánar VIII. kafla sáttarinnar.)

 

Sáttir Samkeppniseftirlitsins við Haga, FISK-Seafood og KS eru meðfylgjandi, en felld eru út ákvæði sem háð eru trúnaði.

 

Á næstunni mun Samkeppniseftirlitið birta fullbúna ákvörðun vegna málsins, en þar verður nánari grein gerð fyrir meðferð málsins, undirliggjandi rannsóknum og þeim aðgerðum sem framangreind sátt mælir fyrir um.

 

Við meðferð málsins hefur Samkeppniseftirlitið haft hliðsjón af gildandi reglum, leiðbeiningum og fordæmum á hinu Evrópska efnahagssvæði, s.s. um rannsóknir samruna af þessu tagi og mótun skilyrða, t.d. um sölu eigna.

 

Nánar um rannsókn á samrunanum – Tímalína

Samruni þessi hefur í tvígang komið til rannsóknar eftirlitsins, en undir lok hinnar fyrri rannsóknar ákváðu samrunaaðilar að draga samrunatilkynningu sína til baka og tilkynna um samrunann að nýju. Í síðari tilkynningunni settu Hagar fram tillögur að skilyrðum sem að mati fyrirtækisins voru til þess fallnar að ryðja úr vegi mögulegri samkeppnisröskun. Hefur rannsókn málsins í kjölfar nýrrar tilkynningar einkum snúið að því meta framboðin skilyrði Haga með tilliti til röskunar samrunans á samkeppni.

 

Rannsókn á samrunanum – Tímalína

            Eldra samrunamál:

·  26. september 2017: Samkeppniseftirlitinu berst upphafleg tilkynning um samrunann. Umfangsmikil rannsókn hefst, þar sem aflað er gagna og sjónarmiða keppinauta og hagsmunaaðila á dagvöru- og eldsneytismarkaði. Rannsókninni lauk 8. mars 2018, sbr. nánar hér á eftir.

·  23. nóvember 2017: Samkeppniseftirlitið birtir frétt á heimasíðu sinni þar sem gerð er grein fyrir áherslum eftirlitsins við rannsókn málsins og sjónarmiða leitað. Í framhaldinu hélt upplýsingaöflun og rannsókn málsins áfram.

·  19. janúar 2018: Samkeppniseftirlitið birtir samrunaaðilum andmælaskjal, þar sem rökstutt frummat á samrunanum er sett fram. Samkvæmt því er talið að alvarlegar samkeppnishindranir leiði af samrunanum sem bregðast verði við, annað hvort með ógildingu samrunans eða skilyrðum sem eyði umræddum hindrunum. Hagar senda tilkynningu til kauphallar um stöðu málsins þann 29. janúar 2018.

·  26. janúar 2018: Hagar lýsa yfir áhuga á sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið til þess að eyða þeim samkeppnishindrunum sem stöfuðu af samrunanum samkvæmt frummati eftirlitsins. Hófust viðræður í kjölfarið.

·  2. febrúar 2018: Hagar senda Samkeppniseftirlitinu athugasemdir við fyrrgreint andmælaskjal, ásamt tillögum að skilyrðum til að leysa hin samkeppnislegu vandamál. Þann 20. febrúar 2018 sendu Hagar eftirlitinu frekari tillögur.

·  1. mars 2018: Samkeppniseftirlitið kynnir Högum frumniðurstöður viðbótarrannsóknar sem ráðist var í í kjölfar útgáfu andmælaskjals og viðbragða Haga við því. Einnig kynnti eftirlitið Högum það frummat sitt að framboðin skilyrði félagsins væru ekki fullnægjandi til að vinna gegn þeim samkeppnishömlum sem ella gætu stafað af samrunanum. Var Högum gefinn lokafrestur til 5. mars 2018 til að setja fram frekari skilyrði. Þann dag bárust sjónarmið Haga og frekari tillögur að skilyrðum. Var Högum í framhaldinu gerð grein fyrir því frummati að fyrirliggjandi tillögur fyrirtækisins væru sem fyrr ekki fullnægjandi.

·  6. mars 2018: Hagar senda frekari tillögur að skilyrðum vegna samrunans til Samkeppniseftirlitsins. Var Högum bent á að lögmæltur frestur til þess að taka ákvörðun í málinu væri að renna út og að þessar nýju tillögur væru of seint fram komnar, enda einsýnt að ekki væri mögulegt að ráðast í fullnægjandi rannsókn á áhrifum skilyrðanna innan hins lögboðna frests til rannsóknar málsins.

·  8. mars 2018: Hagar afturkalla samrunatilkynningu sína, sama dag og ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins var að vænta, eða við lok þeirra fresta sem eftirlitið hafði til rannsóknar málsins lögum samkvæmt. Samhliða boðaði fyrirtækið að tilkynnt yrði um samrunann á ný, þar sem lögð yrðu til skilyrði sem til þess væru fallin að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum. Sjá nánar frétt Samkeppniseftirlitsins og tilkynningu Haga til kauphallar, dags. sama dag.

 

Nýtt samrunamál:

·  27. mars 2018: Ný samrunatilkynning vegna samruna Haga, Olís og DGV berst Samkeppniseftirlitinu. Meðfylgjandi tilkynningunni voru tillögur Haga að „heildstæðum“ skilyrðum sem að mati fyrirtækisins séu til þess fallin að leysa úr þeim samkeppnislegu hindrunum sem bent hafði verið á í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins.

·  28. mars 2018:Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða hagsmunaaðila við nýrri samrunatilkynningu og tillögum Haga að skilyrðum. Svör hagsmunaaðila bárust á tímabilinu 11. til 20. apríl 2018.

·  27. apríl 2018: Samkeppniseftirlitið sendir bréf til Haga þar sem gerð er grein fyrir umsögnum um tillögu Haga að skilyrðum og lagt frummat á tillögurnar. Var það frummat Samkeppniseftirlitsins að Hagar hefðu ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði væru til þess fallin að leysa úr þeirri samkeppnislegu röskun sem annars leiddi af samrunanum. Af þeim sökum væri ekki unnt að fallast á framkomna tillögu félagsins að sátt vegna málsins. Sjá tilkynningu Haga til kauphallar vegna frummatsins, dags. 29. apríl 2018.

·  8. maí 2018:Samkeppniseftirlitið og Hagar eiga fund þar sem frummatið frá 27. apríl er rætt. Hagar óska frekari viðræðna um möguleg skilyrði sem unnt væri að setja samrunanum. Á fundinum og með tölvupósti 11. maí 2018 gerðu Hagar jafnframt tilteknar athugasemdir við efnislegt frummat Samkeppniseftirlitsins á samrunanum. Í ljósi þeirra athugasemda framkvæmdi eftirlitið viðbótarrannsókn á þeim þáttum frummatsins sem Hagar gerðu athugasemdir við.

·  28. maí 2018: Á fundi þann dag gerði Samkeppniseftirlitið Högum grein fyrir niðurstöðu viðbótarrannsóknarinnar. Niðurstaða hennar var að athugasemdir Haga breyttu ekki frumniðurstöðu málsins, m.a. því mati að með samrunanum myndi markaðsráðandi staða samrunaaðila á dagvörumarkaði styrkjast.

·  21. júní 2018:Samkeppniseftirlitið sendir Högum bréf þar sem gerð er grein fyrir meðferð og stöðu málsins, þ.á m. viðræðna um möguleg skilyrði. Var m.a. rakið að Samkeppniseftirlitið hefði átt fundi með Högum vegna málsins 8. maí, 28. maí, 1. júní, 5. júní, 12. júní, 15. júní og 19. júní. Í ljósi þeirrar umfjöllunar og stöðu sáttarviðræðnanna óskaði Samkeppniseftirlitið eftir því að Hagar skiluðu uppfærðum heildstæðum lokatillögum að skilyrðum vegna samrunans auk rökstuðnings fyrir tillögunum.

·  29. júní 2018: Frekari tillögur Haga að skilyrðum vegna samrunans berast, auk þess sem sett eru fram sjónarmið um málið, m.a. í tengslum við frummat sem kynnt var 27. apríl 2018.

·  3. júlí 2018: Samkeppniseftirlitið kallar eftir sjónarmiðum aðila, með frétt og meðfylgjandi bréfi.

·  9. júlí 2018: Samkeppniseftirlitið sendir Högum bréf vegna andmæla fyrirtækisins við meðferð málsins og frummatinu frá 27. apríl. Einnig er vísað til eðlis mála sem eru í sáttameðferð og óskað eftir formlegri staðfestingu samrunaaðila á því að þeim séu ljós réttaráhrif sáttarviðræðna og geti fellt sig við og starfað til frambúðar eftir sátt sem grundvallist á þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram. Staðfesting þess efnis barst frá Högum með tölvupósti 10. júlí 2018.

·  16. júlí 2018: Samkeppniseftirlitið fundar með Högum og tilkynnir fyrirtækinu um frumniðurstöðu eftirlitsins um óvissu um söluvænleika framboðinna eigna og mögulegar lausnir til þess að bregðast við því vandamáli.

·  1. ágúst 2018: Hagar leggja fram uppfærðar tillögur að skilyrðum í tilefni af athugasemdum Samkeppniseftirlitsins frá 16. júlí 2018.

·  3. ágúst 2018: Samkeppniseftirlitið afhendir Högum minnisblað þar sem gerðar eru athugasemdir við tillögur fyrirtækisins að skilyrðum frá 1. ágúst 2018.

·  14. ágúst 2018: Samkeppniseftirlitið sendir Högum upplýsingar um þau viðmið sem miða verður við vegna mats á hæfi kaupenda framboðinna eigna. Jafnframt er tilkynnt um að virkjaður hafi verið viðbótarfrestur samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 17. gr. d. samkeppnislaga vegna rannsóknar samrunans, að ósk samrunaaðila.

·  23. ágúst 2018: Samkeppniseftirlitið sendir Högum bréf þar sem fjallað er um stöðu sáttarviðræðnanna og að ekki séu lengur forsendur til þess að meta mögulega kaupendur viðkomandi eigna innan þess tíma sem eftirlitið hefur til þess að taka ákvörðun í málinu. Þess er óskað að Hagar setji fram lokatillögur sínar að skilyrðum eigi síðar en 29. ágúst 2018.

·  29. ágúst 2018: Uppfærðar tillögur að skilyrðum ásamt rökstuðningi berast frá Högum.

·  3. september 2018: Samkeppniseftirlitið sendir Högum drög að sátt vegna samrunans sem eftirlitið getur fellt sig við með hefðbundnum fyrirvörum.

·  3.-11. september 2018: Sáttaviðræður halda áfram og þeim líkur með undirritun meðfylgjandi sáttar.      


      Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun í málinu sem nálgast má hér