2.7.2019

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um mögulega skekkingu á samkeppnisstöðu á vettvangi Íslandspósts

Samkeppniseftirlitinu hafa undanfarið borist fyrirspurnir er varða mögulega skekkingu á samkeppnisstöðu á vettvangi Íslandspósts. Tengjast þær að hluta til nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst. Af þessu tilefni telur Samkeppniseftirlitið rétt að koma eftirfarandi á framfæri.

1. Um útdeilingu kostnaðar hjá Íslandspósti

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram í málsgrein efst á bls. 43 að við útreikning á kostnaði við þá starfsemi Íslandspósts sem félagið hefur einkarétt á sé gengið út frá því að einkarétturinn standi undir öllum sameiginlegum og föstum kostnaði og að önnur starfsemi, þ.m.t. samkeppnisstarfsemi, sé ekki látin bera neina hlutdeild í slíkum kostnaði. Það skekki samkeppnisstöðu keppinauta.

Af þessu tilefni er rétt að vekja athygli á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, Aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði, sem byggir á sátt sem Íslandspóstur gerði við Samkeppniseftirlitið. Samkvæmt ákvörðuninni hvíla á Íslandspósti skilyrði sem m.a. er ætlað að stuðla að því að úthlutun kostnaðar félagsins vegna einkaréttarstarfsemi annars vegar og samkeppnisstarfsemi hins vegar eigi sér stað með hlutlægum hætti og raski ekki samkeppni. Í þessu skyni er m.a. mælt fyrir um sérstök rekstraruppgjör fyrir mismunandi samkeppnisstarfssemi Íslandspósts til þess að auðvelda eftirlit með m.a. mögulegri víxlniðurgreiðslu frá einkaleyfisrekstri til samkeppnisstarfsemi. Kveðið er ítarlega á um kostnaðarviðmið og forsendur að baki þessum uppgjörum, þar sem fylgt er fordæmum úr úrlausn sambærilegra mála á Evrópska efnahagssvæðinu. Ljóst er að sú lýsing á kostnaðaruppgjöri sem fram kemur í viðkomandi málsgrein efst á bls. 43 í skýrslu Ríkisendurskoðunar á ekki við um þá aðferðafræði sem kveðið er á um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Í ákvörðuninni er m.a. kveðið á um að eftirlitsnefnd sé sett á fót. Nefndin hefur það hlutverk að fylgja eftir skilyrðum ákvörðunarinnar. Þannig er það m.a. hlutverk nefndarinnar að leggja mat á uppgjör mismunandi samkeppnisstarfsemi (svokallaðra samkeppnisþátta) Íslandspósts sem nánar er skilgreind. Þetta felur m.a. í sér að leggja mat á hvort þeirri kostnaðarúthlutun sem kveðið er á um í skilyrðunum sé fylgt.

Að fengnum frekari skýringum á ályktunum Ríkisendurskoðunar mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að taka uppgjör og þ.m.t. kostnaðarskiptingu Íslandspósts til skoðunar, annað hvort af hálfu eftirlitsnefndarinnar eða Samkeppniseftirlitsins.

2. Um mögulega undirverðlagningu í sendibílaþjónustu

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er gefið til kynna að Íslandspóstur undirverðleggi sendibílaþjónustu með ólögmætum hætti. Rétt er í þessu sambandi að benda á að samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun nr. 8/2017 er Íslandspóstur, eins og áður segir, skuldbundinn til þess að framkvæma sérstök aðskilin rekstraruppgjör fyrir ýmsa samkeppnisstarfsemi sem tilgreind er í ákvörðuninni, þ. á m. akstursþjónustu Íslandspósts og vöruflutninga.

Megintilgangur með uppgjörunum er að auðvelda eftirlit og tryggja rétta framkvæmd, þ. á m. varpa ljósi á hvort um mögulega undirverðlagningu geti verið að ræða á einstökum sviðum.

Eins og áður greinir starfar sérstök eftirlitsnefnd á grundvelli ákvörðunar nr. 8/2017. Hægt er að beina kvörtunum til nefndarinnar telji keppinautar að verðlagning Íslandspósts feli í sér undirverðlagningu sem fari gegn samkeppnislögum eða ákvörðun nr. 8/2017. Jafnframt er aðilum frjálst að beina slíkum kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins sem mun þá koma þeim í réttan farveg.