12.9.2019

Samkeppniseftirlitið gefur út skýrslu um markaðinn fyrir fjárhagskerfi

Samkeppniseftirlitið birtir í dag rit nr.3/2019, Greining á markaði fyrir fjárhagskerfi. Þar eru birtar helstu niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem Samkeppniseftirlitið framkvæmdi á markaðnum.

Fjárhagskerfi er í þessari greiningu notað sem yfirheiti yfir viðskiptahugbúnað sem notaður er af fyrirtækjum til þess að veita, skrá og fylgjast miðlægt með ýmsum fjárhagsupplýsingum úr rekstrinum. Í grunninn eru fjárhagskerfi bókhaldskerfi sem geta boðið upp á utanumhald um m.a. lánardrottna, reikningagerð, bankatengingar, sölustarfsemi, markaðsmál, framleiðslu, innkaup, laun og birgðahald. Þá bjóða fjárhagskerfi oft upp á aðra hliðstæða virkni, s.s. viðskiptamanna- og sölukerfi og verk- og tímaskráningarkerfi.

Markaðurinn í heild sinni einkennist af því að þar starfa örfá frekar stór fyrirtæki ásamt nokkrum fjölda mun minni aðila. 18 fyrirtæki voru starfandi á markaðnum árið 2018. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins bendir til þess að ástæða sé til þess að sundurgreina markað fyrir fjárhagskerfi í undirmarkaði eftir virkni hugbúnaðarins, enda séu til ólíkar gerðir af fjárhags­kerfis­hug­búnaði sem henta við að sinna verkefnum á ólíkum skala, og takmarkað samkeppnislegt aðhald sé á milli fjárhagskerfa með mismunandi virkni. Einnig eru vísbendingar um að landfræðilegan markað fyrir fjárhagskerfi megi einskorða við Ísland, þar sem samkeppnislegt aðhald sem íslensk fyrirtæki sem starfa á markaðnum búi við erlendis frá sé takmarkað, m.a. vegna mikilvægis séríslenskra hugbúnaðarviðbóta og tenginga sem viðskiptavinir krefjist af sölu- og þjónustuaðilum fjárhagskerfa.

Hófleg samþjöppun er á markaðnum í heild sinni, en sé hann sundurgreindur niður í undirmarkaði eftir virkni er samþjöppun töluverð á markaði fyrir fjárhagskerfi með takmarkaða virkni, og nokkurrar samþjöppunar gætir á markaði fyrir fjárhagskerfi með miðlungs virkni annars vegar og yfirgripsmikla virkni hins vegar.