5.1.2011

Endurreisn atvinnulífsins - Ársrit Samkeppniseftirlitsins 2011

Endurreisn atvinnulífsins
Ársrit Samkeppniseftirlitsins 2011 komið út

Tilvitnanir:

  • Samkeppniseftirlit_arsrit2011„Ljóst er að það getur haft mjög skaðleg áhrif á samkeppni og atvinnurekstur ef skuldavandamál rekstrarhæfra fyrirtækja eru ekki tekin föstum tökum.” (bls 8)
  • „Á árinu 2010 sektaði Samkeppniseftirlitið níu aðila um samtals tæpan milljarð króna í fimm málum.” (bls. 14)
  • „Frá bankahruni hafa verkefni Samkeppniseftirlitsins aukist til muna, bæði fjöldi athugana og umfang þeirra.” (bls. 15)

Samkeppniseftirlitið birtir í dag ársrit sitt, undir fyrirsögninni, Endurreisn atvinnulífsins. Í ársritinu er fjallað um starfsemi Samkeppniseftirlitsins á árinu 2010 og viðfangsefni og áherslur á árinu 2011. Þar er m.a. fjallað um eftirfarandi:

  • Yfirtökur banka á fyrirtækjum bundnar skilyrðum
    Gerð er grein fyrir afstöðu Samkeppniseftirlitsins til eignarhalds banka á atvinnufyrirtækjum og fjallað um skilyrði sem Samkeppniseftirlitið hefur sett  slíku eignarhaldi banka, í því skyni að draga úr skaðlegum áhrifum á samkeppni (sjá bls. 6).
  • Hraða þarf endurskipulagningu fyrirtækja – verkinu hefur miðað of hægt
    Gerð er grein fyrir verkefnum Samkeppniseftirlitsins sem miða að því að hraða endurskipulagningu fyrirtækja og gefið yfirlit yfir nokkur verkefni stofnunarinnar frá bankahruni, sem varða sérstaklega endurreisn atvinnulífsins (sjá bls. 8).
  • Samkeppniseftirlitið varar við of mikilli samþjöppun á fjármála-markaði og setur skilyrði fyrir samstarfi banka
    Fjallað er um almenn viðhorf Samkeppniseftirlitsins til samþjöppunar á fjármálamarkaði. Í ritinu er einnig að finna yfirlit yfir undanþágur sem Samkeppniseftirlitið hefur veitt fjármálafyrirtækjum til samstarfs á síðustu misserum (sjá bls. 9).
  • Rannsókn á samkeppnislagabrotum leiðir til breytinga á matvöru-markaði
    Fjallað er um breytingar á starfsháttum fyrirtækja á matvörumarkaði sem leiða af nýlegri ákvörðun um samkeppnislagabrot Haga og sex kjötvinnslufyrirtækja (sjá bls. 10).
  • Annasamt ár í samkeppniseftirliti – tæpur milljarður í sektir
    Í ársritinu er að finna yfirlit yfir helstu húsleitir, sektir og aðrar íhlutanir á árinu 2010. Ennfremur eru reifaðar allar ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins, úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómar héraðsdóms og Hæstaréttar á þessu sviði (sjá bls. 14 og bls. 18-30).
  • Áherslur Samkeppniseftirlitsins á árinu 2011 – hraða þarf endurreisn atvinnulífsins (sjá bls. 17).

RognvaldurJSaemundsson_1Rögnvaldur J. Sæmundsson, formaður stjórnar:
„Reynslan hefur sýnt að samkeppni flýtir fyrir nauðsynlegri endurskipulagningu og hraðar efnahagsbata. Aðgerðir sem draga úr samkeppni koma í veg fyrir nauðsynlega nýsköpun og hafa á endanum neikvæð áhrif á hag neytenda.”

PallGunnarPalsson_2Páll Gunnar Pálsson, forstjóri:
„Samkeppniseftirlitið hefur kappkostað að beita úrræðum sínum til að flýta endurreisn atvinnulífsins. Nefna má að eftirlitið hefur bundið yfirtökur banka á atvinnufyrirtækjum skilyrðum til þess að minnka hættuna á að eignarhald banka raski samkeppni.
...
Þá hefur Samkeppniseftirlitið kappkostað að hafa vakandi auga með hvers konar samkeppnishindrunum sem mæta nýjum og smærri fyrirtækjum sem reyna að ná fótfestu og vaxa við hlið stærri keppinauta. Ef ekki er komið í veg fyrir hindranir af þessu tagi er sérstök hætta á að neytendur verði fórnarlömb skertrar samkeppni."

Ársrit Samkeppniseftirlitsins - PDF skjal - Opnast í nýjum glugga