14.10.2020

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna fyrirhugaðs samruna Norðlenska matborðsins ehf., Kjarnafæðis hf. og SAH afurða ehf.

  • Samkeppniseftirlitið leitar umsagnar og upplýsinga frá hagsmunaaðilum. Aðgangur gefinn að samrunaskrá, án trúnaðarupplýsinga.
  • Horft er til bæði hagsmuna bænda og neytenda við mat á samrunanum.
  • Umsagnarfrestur til 28. október 2020.

Þann 18. ágúst 2020 var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um fyrirhugaðan samruna Norðlenska matborðsins ehf. (hér eftir „Norðlenska“), Kjarnafæðis hf. (hér eftir „Kjarnafæði“) og SAH afurða ehf. (hér eftir „SAH“). Norðlenska er framleiðslufyrirtæki á sviði kjötvöru og er með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík og í Reykjavík. Norðlenska slátrar hrossum, nautgripum, sauðfé og svínum. Þá framleiðir Norðlenska og selur ýmsar vörur úr lamba-, nauta-, grísa- og hrossakjöti undir vörumerkjunum Goði, KEA, Húsavíkurkjöt og Bautabúrið. Kjarnafæði er matvælavinnslufyrirtæki sem framleiðir og selur ýmsar vörur úr lamba-, nauta-, grísa- og hrossakjöti. SAH, sem er í eigu Kjarnafæðis, rekur sláturhús og afurðasölu á Blönduósi. Starfsemi félagsins felst í slátrun á hrossum, nautgripum og sauðfé, og sölu á afurðum til matvælavinnslufyrirtækja.

Í tengslum við rannsókn samrunans óskar Samkeppniseftirlitið hér eftir sjónarmiðum þeirra sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna hans. Óskar Samkeppniseftirlitið sérstaklega eftir sjónarmiðum um eftirfarandi atriði:

  • Áhrif samrunans á hag bænda og neytenda.
  • Samkeppnisaðstæður í slátrun gripa hér á landi og áhrif samrunans á samkeppni á milli sláturhúsa í slátrun hrossa, nautgripa, sauðfé og svína.
  • Áhrif samrunans á þá markaði þar sem samrunaaðilar starfa.
  • Þá óskar Samkeppniseftirlitið einnig eftir almennum sjónarmiðum um samkeppnisaðstæður á mörkuðum fyrir kjötafurðir hér á landi, allt frá ræktun gripa til sölu á fullunnum kjötafurðum.

Hjálögð tilkynningu þessari er svokölluð samrunaskrá, án trúnaðarupplýsinga, en í henni má finna ítarlegar upplýsingar frá samrunaaðilum um samrunann. Þá er einnig hjálagt afrit af umsagnarbeiðnum Samkeppniseftirlitsins.

Þess er óskað að umsagnir vegna samrunans berist eigi síðar en 26. október 2020 á netfangið samkeppni@samkeppni.is.

Hjálagt:

[Samrunaskrá, án trúnaðar]

Almennt um samrunaeftirlit

Samkeppniseftirlitið hefur það hlutverk samkvæmt samkeppnislögum að rannsaka samruna og ber í því sambandi að leggja mat á það hvort samruni fyrirtækja raski samkeppni með umtalsverðum hætti og skaði þar með hagsmuni almennings og/eða atvinnulífs. Í þessu máli er bæði horft til hagsmuna bænda og neytenda.

Við mat á áhrifum samruna aflar Samkeppniseftirlitið gagna frá aðilum máls og öðrum þeim sem málið varðar, eftir því sem nauðsynlegt þykir hverju sinni. Í þessu máli telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að gefa bændum, öðrum viðskiptavinum, keppinautum og öðrum hagsmunaðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri.