11.5.2021

Stjórnunar- og eignatengsl fyrirtækja – verkefni Samkeppniseftirlitsins 2008-2021

Samkeppniseftirlitið hefur birt skýrslu nr. 2/2021 , Stjórnunar- og eignatengsl fyrirtækja – verkefni Samkeppniseftirlitsins 2008-2021. Í skýrslunni er gerð grein fyrir megindráttum í störfum eftirlitsins á vettvangi stjórnunar- og eignatengsla frá bankahruni til þessa dags.

Skýrslan veitir innsýn í helstu verkefni og áskoranir, ásamt því að reifaðar eru um 120 úrlausnir á þessu sviði. Skýrslan veitir jafnframt aðgang að slóðum viðkomandi úrlausna, til frekari glöggvunar fyrir notendur.

Draga má þrenn kjarnaviðfangsefni út úr umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um stjórnunar- og eignatengsl og samkeppnishætti á tímabilinu:

1) Yfirráð banka og sjóða á þeirra vegum yfir atvinnufyrirtækjum:

Samkeppniseftirlitið fjallaði ítarlega um áskoranir þessu tengdu í kjölfar bankahrunsins. Í skýrslunni er gerð grein fyrir athugunum og stefnumörkun eftirlitsins á þessu sviði. Þar á meðal eru reifaðar um 60 ákvarðanir þar sem sett voru skilyrði um samkeppnislegt sjálfstæði yfirtekinna fyrirtækja og aðrar aðgerðir til að sporna við m.a. blokkamyndun.

2) Eignarhald lífeyrissjóða á fleiri en einu atvinnufyrirtæki á sama markaði (sameiginlegt eignarhald):

Samkeppniseftirlitið hefur verið virkur þátttakandi í umræðum um áskoranir sem leiða af víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi. Í skýrslunni er gerð grein fyrir verkefnum eftirlitsins á þessu sviði, þar á meðal um 20 ákvörðunum þar sem sett hafa verið skilyrði til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði atvinnufyrirtækja í eigu lífeyrissjóða og sporna við blokkamyndun.

3) Stjórnunar- og eignatengsl á tilteknum mörkuðum:

Í skýrslunni er gerð grein fyrir umfjöllun eftirlitsins um stjórnunar- og eignatengsl á tilteknum mörkuðum, s.s. fjármálamörkuðum, í sjávarútvegi o.fl.

Í skýrslunni er jafnframt gerð grein fyrir áformum Samkeppniseftirlitsins um að styrkja enn frekar reglubundna yfirsýn yfir eigna- og stjórnunartengsl í íslensku atvinnulífi. Unnið er að því að styrkja verklag og efla aðgang að gagnagrunnum og hugbúnaði. Hefur Samkeppniseftirlitið leitað samstarfs við aðra eftirlitsaðila um þessi mál.

Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið lagt áherslu á að það hafi fjárhagslegt svigrúm til að styrkja viðvarandi eftirlit sitt með stjórnunar- og eignatengslum.

Efni skýrslunnar var tekið saman í tilefni af fyrirspurn um samkeppniseftirlit sem Björn Leví Gunnarsson, alþingismaður, beindi til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.