Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna samrunatilkynningar Ardian og Mílu
Samkeppniseftirlitinu hefur borist fullnægjandi tilkynning vegna samruna franska sjóðastýringafélagsins Ardian France SA („Ardian“) og Mílu ehf. („Mílu“). Með viðskiptunum kaupir eignarhaldsfélag í eigu Ardian og fjárfestingasjóða þess allt hlutafé Mílu af Símanum hf.
Samkeppniseftirlitið kallaði eftir samrunatilkynningu vegna samrunans 19. nóvember 2021. Samruninn reyndist vera tilkynningarskyldur og barst samrunatilkynning frá aðilum þann 19. janúar síðastliðinn. Í kjölfarið fór fram skoðun á tilkynningunni og mat á því hvort að hún innihéldi allar nauðsynlegar upplýsingar eins og reglur kveða á um. Átti Samkeppniseftirlitið í samskiptum við fyrirtækin vegna þessa og fékk frá þeim frekari nauðsynlegar upplýsingar.
Tilkynningin var metin fullnægjandi 8. febrúar og því byrjuðu tímafrestir að telja frá deginum í gær. Á sérstakri síðu um stöðu samrunamála má lesa nánar um tímafresti í samrunamálum auk þess sem þar má finna stöðu þeirra mála sem eru til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið hefur það hlutverk samkvæmt samkeppnislögum að leggja mat á það hvort samruni fyrirtækja raski samkeppni og skaði þar með hagsmuni almennings. Liður í slíkri rannsókn er að afla sjónarmiða fyrirtækja sem eftir atvikum eru keppinautar eða viðskiptavinir samrunaaðila.
Hér má nálgast samrunatilkynningu Ardian og Mílu án trúnaðarupplýsinga.
Samkeppniseftirlitið býður öllum hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum að senda inn umsögn um samrunann og möguleg áhrif hans, sér í lagi um það hvaða áhrif umsagnaraðili telur að sala Mílu hafi á samkeppni, um markaðsskilgreiningar, lóðrétt tengsl Símans og Mílu vegna langtíma heildsölusamnings eftir samrunann og fleira.
Vegna lögbundinna tímafresta sem hvíla á Samkeppniseftirlitinu við meðferð samrunamála er þess óskað að sjónarmið berist á netfangið samkeppni@samkeppni.is eigi síðar en mánudaginn 21. febrúar.