21.7.2022

Markaðspróf vegna tillagna Ardian að breytingum samninga og skilyrðum í tengslum við kaup á Mílu

Sjónarmiða aflað vegna frummats Samkeppniseftirlitsins og athugasemda Ardian og Símans

  • Untitled-design-95-

Eins og kunnugt er hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar kaup fjárfestingarsjóðsins Ardian á Mílu, en seljandi er Síminn. Viðskiptin falla undir samrunareglur samkeppnislaga og er rannsóknin háð lögbundnum tímafrestum.

Rannsóknin hefur staðið sleitulaust frá 8. febrúar síðastliðnum, þegar fullbúin samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu. Við rannsóknina hefur eftirlitið greint gögn og upplýsingar sem fylgdu samrunatilkynningu, aflað frekari gagna og sjónarmiða frá Ardian, Símanum og Mílu, þar á meðal umfangsmikilla innanhússgagna um undirbúning og forsendur viðskiptanna.

Einnig hefur eftirlitið aflað upplýsinga og sjónarmiða annarra aðila á markaðnum, það er fyrirtækja í smásölu, heildsölu og innviðastarfsemi á fjarskiptamarkaði. Hafa flestir þessara aðila sett fram rökstuddar áhyggjur af samkeppnisaðstæðum á fjarskiptamarkaði eftir viðskiptin. Ennfremur hefur Fjarskiptastofa sett fram ítarleg sjónarmið um möguleg skaðleg áhrif viðskiptanna og veitt eftirlitinu upplýsingar sem mikilvægar eru við rannsókn málsins. Hefur Samkeppniseftirlitið með þessu uppfyllt lögbundið hlutverk sitt.

Þá hefur eftirlitið nýtt sér samstarf samkeppniseftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu við rannsókn málsins og mátað efnisatriði málsins við þær leiðbeiningar sem fyrir liggja í ESB/EES-rétti. Einnig hefur eftirlitið leitað óformlega í smiðju eftirlita sem fengist hafa við kaup á innviðum ríkja. Rétt er þó að geta þess að Samkeppniseftirlitið fær ekki séð að til séu dæmi um hliðstæð eða sambærileg kaup á fjarskiptainnviðum eins og það sem hér liggur til grundvallar, þar sem hið selda er rekstrarfélag sem tekur til virkra jafnt sem óvirkra innviða og heildsölustarfsemi, markaðshlutdeild hins selda er sterk á jafn breiðu sviði, seljandi er stærsti smásöluaðili á viðkomandi markaði og markaðsráðandi á einstökum undirmörkuðum, og seljandi og hið selda eru bundin jafn þéttum viðskiptaböndum og samstarfi til langs tíma eftir kaupin.

Frummat Samkeppniseftirlitsins

Á grunni framangreindrar rannsóknar og í samræmi við málsmeðferðarreglur, hefur Samkeppniseftirlitið birt aðilum samrunans svokallað andmælaskjal, þar sem sett er fram ítarlegt frummat um samkeppnisleg áhrif sölunnar. Í frummatinu kemur fram að fyrirfram megi gera ráð fyrir því að slit á eignatengslum milli Símans og Mílu séu jákvæð í samkeppnislegu tilliti. Á hinn bóginn er bent á að samrunaaðilar horfi fram hjá þeirri staðreynd að eignatengsl Símans og Mílu hafa allt frá árinu 2013 verið bundin ítarlegum skilyrðum sem ætlað er að vinna gegn skaðlegum áhrifum eignatengslanna.

Í andmælaskjalinu er lögð áhersla á að greina samkeppnisleg áhrif fyrirhugaðs heildsölusamnings á milli Símans og Mílu. Kveður hann á um kaup Símans á öllum helstu heildsöluaðföngum fjarskiptaþjónustu til 20+5 ára og felur í sér einkakauparéttindi til handa Mílu gagnvart Símanum. Verður samningurinn ekki skilinn öðruvísi en svo að Síminn verði til langs tíma bundinn í viðskipti við Mílu. Um leið yrðu keppinautar Mílu að verulegu leyti útilokaðir frá viðskiptum við stærsta veitanda fjarskiptaþjónustu á landinu. Jafnframt telur eftirlitið að ákvæði samningsins um bindingu heildsöluverðs við vísitölu neysluverðs feli í sér hættu á að Síminn, og þar með viðskiptavinir hans, verði af verðlækkunum vegna áframhaldandi tækniþróunar og samkeppnislegs aðhalds.

Þá er í andmælaskjalinu fjallað um náið samstarf Símans og Mílu, samkvæmt fyrirliggjandi heildsölusamningi, og leitt að því líkum að fyrirhugað samstarf komi í veg fyrir samkeppni. Einnig eru færð fyrir því rök að samruninn geti haft í för með sér aukna samhæfingu keppinauta við rekstur gagnaflutningskerfa og auki þannig hvata til samstilltra aðgerða. Í gögnum málsins er að finna upplýsingar um það sem kallað er innviðabandalag (e. Backbone Alliance) sem getur í sinni verstu mynd haft þau áhrif að öll innviðasamkeppni leggist af.

Enn fremur eru leiddar að því líkur að markaðsráðandi staða Mílu styrkist á markaði fyrir sértæka gagnaflutningaþjónustu og að Míla muni að óbreyttu hafa tækifæri til að takmarka aðgengi viðskiptavina og keppinauta á lægri sölustigum að mikilvægum aðföngum og viðskiptavinum.

Að óbreyttu sé hætta á því að keppinautum í innviðastarfsemi og heildsölu fækki verulega. Fyrir liggi að samkeppni á þessu sviði hafi skapað neytendum og fyrirtækjum aðgang að öflugri innviðum og legið til grundvallar því að ný fjarskiptafyrirtæki hafa komist inn á markaðinn.

Í bréfi til hagaðila vegna markaðsprófunar, sem aðgengilegt er hér, má nálgast ítarlegri samantekt á frummati Samkeppniseftirlitsins og beiðni um umsögn við framkomnar tillögur að breytingum og skilyrðum vegna kaupanna.

Viðbrögð Ardian og Símans – tillögur Ardian

Ardian og Síminn brugðust við framangreindu andmælaskjali með því að senda Samkeppniseftirlitinu ítarleg sjónarmið, sitt í hvoru lagi, en bæði dagsett 15. júlí síðastliðinn. Í sjónarmiðum beggja félaga er kjarnaatriðum í frummati Samkeppniseftirlitsins mótmælt og færð fyrir því rök að Samkeppniseftirlitinu beri að gera breytingar á frummati sínu við endanlegt mat sitt á áhrifum samrunans.

Sjónarmið Ardian, án trúnaðarupplýsinga, eru aðgengileg hér og sjónarmið Símans hér.

Samhliða því að gera athugasemdir við frummat Samkeppniseftirlitsins setur Ardian í bréfi sínu fram tillögur að breytingum á efni fyrrgreinds heildsölusamnings. Þannig verði gildistími samningsins styttur en jafnframt gerðar tilteknar breytingar, einkum á ákvæðum um samstarf Símans og Mílu og ákvæðum um verðlagningu. Þá eru settar fram tillögur að skilyrðum sem tryggja eiga aðgang að kerfum og þjónustu Mílu, aðgreiningu þjónustuþátta, upplýsingagjöf til viðskiptavina vegna breytinga á kerfum eða þjónustu Mílu og eftirlit og eftirfylgni með skilyrðum. Framangreindar tillögur Ardian eru reifaðar í 8. kafla í fyrrgreindu erindi félagsins (bls. 29 – 33).

Markaðsprófun á framlögðum tillögum

Þegar samrunaaðilar leggja fram tillögur að breytingum eða skilyrðum í tilefni af frummati samkeppnisyfirvalda er að jafnaði framkvæmt svokallað markaðspróf (e. market test) á viðkomandi tillögum. Í markaðsprófi felst meðal annars að hagaðilum eru kynntar viðkomandi tillögur og óskað sjónarmiða þeirra.

Með vísan til þessa hefur Samkeppniseftirlitið í dag sent helstu hagaðilum fyrrgreint bréf, þar sem reifað er frummat Samkeppniseftirlitsins og óskað sjónarmiða um framkomin sjónarmið samningsaðila og tillögur Ardian í tilefni af sáttarviðræðum.

Þar sem að viðskipti þessi varða breiðan hóp viðskiptavina á fjarskiptamarkaði, þar á meðal neytendur, sem og stjórnvöld og hagsmunaaðila á ýmsum sviðum, telur Samkeppniseftirlitið jafnframt mikilvægt að gefa öllum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í þágu rannsóknar málsins er óskað eftir að sjónarmiðum verið komið á framfæri fyrir lok dags 28. júlí næstkomandi.

Helgast þessi skammi frestur af því að Samkeppniseftirlitinu ber, miðað við núgildandi tímafresti, að taka afstöðu til málsins fyrir 18. ágúst næstkomandi.

Framhald rannsóknarinnar

Árétta ber að frummat það sem reifað er hér að framan, samanber og bréf til hagaðila, getur tekið verulegum breytingum með hliðsjón af framkomnum sjónarmiðum samningsaðila og sjónarmiðum sem berast kunna í yfirstandandi markaðsprófun, ef til þess standa rök og upplýsingar. Þá hefur Ardian, eins og áður segir, óskað eftir viðræðum um sátt í málinu og Samkeppniseftirlitið fallist á slíkar viðræður.

Lyktir málsins ráðast því annars vegar af því hvert endanlegt mat Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum sölunnar á Mílu verða, miðað við fyrirliggjandi samninga, og hins vegar af vilja aðila viðskiptanna til að gera breytingar á fyrirliggjandi samningum eða setja viðskiptunum skilyrði sem miða að því að tryggja hagsmuni neytenda og fyrirtækja af samkeppni í smásölu, heildsölu og innviðaþjónustu á fjarskiptamarkaði.

Meðfylgjandi gögn:

  • Bréf Samkeppniseftirlitsins til markaðsaðila vegna kaupa Ardian á Mílu af Símanum, dags. 21. júlí 2022 - ósk um sjónarmið um a) tillögur Ardian að skilyrðum og b) athugasemdir samrunaaðila við frummat Samkeppniseftirlitsins.
  • Athugasemdir Ardian við andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins, dags. 15. júlí síðastliðinn (án trúnaðarupplýsinga að mati Ardian).
  • Tillögur Ardian að skilyrðum til að takmarka möguleg skaðleg áhrif samrunans.
  • Athugasemdir Símans við andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins, dags. 15. júlí síðastliðinn (án trúnaðarupplýsinga að mati Símans).