10.6.1999

Kæra Tals hf. vegna GSM-þjónustu Landssíma Íslands hf.

Á fundi sínum þann 9. júní sl. afgreiddi samkeppnisráð kæru Tals hf. vegna GSM-þjónustu Landssíma Íslands hf. (ákvörðun nr. 17/1999) Afgreiðsla samkeppnisráðs felur annars vegar í sér að sérstöku áliti er beint til samgönguráðherra og hins vegar er beint bindandi fyrirmælum til Landssímans.

  • Þegar Póst- og símamálastofnun var gerð að hlutafélagi þann 1. janúar 1997, Pósti og síma hf., var fyrirtækinu veitt ríkisaðstoð sem nemur a.m.k. 10 milljörðum króna.Ríkisaðstoðin fólst í því að eignir fyrirtækisins voru vanmetnar og viðskiptavild þess ekki metin og eignfærð. Til viðbótar voru lífeyrisskuldir fyrirtækisins lækkaðar um 1,5 milljarð króna.
  • Vegna þessarar ríkisaðstoðar nýtur Landssími Íslands nú ólögmæts forskots í samkeppni á fjarskiptamarkaði. Á grundvelli ríkisstuðningsins er Landssíminn í aðstöðu til að lækka verð á þjónustu sinni, án þess að það eigi sér eðlilegar rekstrarlegar forsendur. Með ríkisaðstoðinni hefur keppinautum Landssímans verið mismunað og samkeppnisstöðu þeirra raskað með alvarlegum hætti.
  • Þessi ríkisaðstoð er andstæð markmiði samkeppnislaga og fer auk þess gegn ákvæðum laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Jafnframt telur samkeppnisráð að ríkisaðstoðin fari gegn ákvæðum EES-samningsins.
  • Samkeppnisráð beinir þeim tilmælum til samgönguráðherra að láta svo skjótt sem auðið er framkvæma endurmat á fastafjármunum Landssímans, skuldbindingum fyrirtækisins og viðskiptavild þess. Að því loknu verði ríkisaðstoðin til Landssímans dregin til baka.
  • Samkeppnisráð leggur til við samgönguráðherra að hann hlutist til um að stofnað verði sérstakt dótturfyrirtæki um GSM-þjónustu Landssímans.
  • Frá árinu 1994, þegar Póstur og sími hóf að bjóða GSM-þjónustu, til 1. apríl 1997 var verð á þessari þjónustu nánast óbreytt. Á þessum tíma hafði Póstur og sími einkarétt á markaðnum. Þann 1. apríl 1997 lá fyrir að Tal myndi hefja starfsemi í farsímaþjónustu. Frá þeim tíma til dagsins í dag hefur Landssíminn lækkað verð á GSM-þjónustu sinni um 27-50% auk þess sem gjöld fyrir sérþjónustu hafa verið felld niður.
  • Liður í verðlækkunum Landssímans er magnafsláttur sem fyrirtækið veitir stórnotendum. Fyrir þessum afslætti hafa ekki verið færð nein rekstrarleg rök. Hins vegar kemur fram í fundargerðum Landssímans að markmið fyrirtækisins með þeim hafi verið að binda verðmæta viðskiptavini hjá fyrirtækinu og hindra Tal í að afla sér viðskipta við þá.
  • Þegar hin einstaka yfirburðastaða Landssímans á fjarskiptamarkaði er virt og höfð er hliðsjón af forskoti fyrirtækisins, m.a. vegna áratuga einokunarstöðu, telur samkeppnisráð að magnafsláttur fyrirtækisins feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu sem fari gegn markmiði samkeppnislaga og gegn markmiðum Alþingis um virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.
  • Samkeppnisráð beinir því þeim fyrirmælum til Landssímans um að fella úr gildi magnafslátt í GSM-þjónustu.
  • Tal er bæði keppinautur Landssímans á GSM-markaði og kaupandi að almennri fjarskiptaþjónustu hjá fyrirtækinu vegna einokunarstöðu Landssímans í almennri talsímaþjónust, leigulínum o.fl. Því ber Landssímanum að viðhafa skýra stjórnunarlega aðgreiningu innan fyrirtækisins. Engu að síður hafa verið stofnaðar ýmsar nefndir innan Landssímans þar sem fulltrúar af öllum sviðum fyrirtækisins eiga sæti, jafnt frá þeim sviðum sem eiga í samkeppni við Tal og þeim sviðum sem selja Tali þjónustu. Samkeppnisráð telur þetta fyrirkomulag fela í sér aðstæður sem séu til þess fallnar að raska samkeppni, m.a. þar sem trúnaðarupplýsingar frá Tali geti borist til stjórnenda GSM-deildar Landssímans. Í ákvörðun samkeppnisráðs er fyrirmælum beint til Landssímans um að fella niður framangreint fyrirkomulag.
  • Loks er fyrirmælum beint til Landssímans um að fyrirtækið láti Samkeppnisstofnun árlega í té yfirlýsingu löggilts endurskoðanda þar sem sýnt sé fram á að GSMþjónusta Landssímans sé í raun fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi fyrirtækisins.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga)