Kaup Grænmetis ehf. á hlutabréfum í Ágæti hf.
Samkeppnisráð hefur úrskurðað (Ákvörðun samkeppnisráðs nr. 44/1999), að miðað við þau gögn sem lögð hafa verið fram vegna kaupa Grænmetis ehf. á hlutabréfum í Ágæti hf., sé ekki ástæða til afskipta samkeppnisyfirvalda vegna kaupanna. Í ákvörðun ráðsins er tekið fram að breytist þær forsendur sem ákvörðunin byggir á, verði málið tekið til meðferðar á ný.
Í nóvember sl. keypi Þórhallur Bjarnason garðyrkjubóndi, og fyrirtæki hans Grænmeti ehf., 95% hlut í grænmetisdreifingunni Ágæti hf. af Búnaðarbankanum. Fyrr á þessu ári hafði Sölufélag garðyrkjumanna svf. haft frumkvæði að því að hluthafar í Ágæti seldu hluti sína í fyrirtækinu til Búnaðarbankans og hafði Sölufélagið jafnframt gert samning við bankann um að Sölufélagið myndi kaupa öll bréfin af bankanum í lok sumars. Ekkert varð af þeim kaupum þar sem bankinn mat það svo að kaup Sölufélagsins á Ágæti kynnu að stríða gegn samrunareglum samkeppnislaga. Hins vegar keypti Þórhallur Bjarnason, garðyrkjubóndi og fyrrverandi stjórnarmaður í Sölufélagi garðyrkjumanna, hlutabréfin af bankanum í gegnum einkahlutafélag sitt Grænmeti.
Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).