Samkeppnisráð setur skilyrði fyrir samruna Lyfju hf. og Lyfjabúða hf.
Á fundi sínum þann 2. febrúar sl. fjallaði samkeppnisráð um samruna Lyfju hf. og Lyfjabúða hf. Hið sameinaða fyrirtæki mun verða rekið undir heiti Lyfju. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að samruninn myndi leiða til markaðsráðandi stöðu Lyfju á höfuðborgarsvæðinu sem hefði skaðleg áhrif á samkeppni og væri andstæður hagsmunum neytenda. Telji samkeppnisráð að samruni hindri virka samkeppni getur ráðið ógilt samruna eða sett honum skilyrði. Af hálfu forsvarsmanna Lyfju var óskað eftir því við samkeppnisyfirvöld að samrunanum yrði sett skilyrði sem myndu eyða hinum skaðlegu áhrifum á samkeppnina á lyfsölumarkaðnum. Lögðu þeir fram tillögu þar að lútandi. Viðræður Lyfju og samkeppnisyfirvalda hafa leitt til þess að fyrirtækið fellst á að selja í einu lagi fimm af fjórtán starfandi apótekum þess á höfuðborgarsvæðinu. Að uppfylltum skilyrðunum telur samkeppnisráð að skaðlegum áhrifum samrunans verði eytt en salan hefur í för með sér að markaðshlutdeild Lyfju sem að óbreyttu hefði orðið 52-53% mun lækka í 37-38%.
Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).