16.3.2001

Norrænn samningur um samstarf samkeppnisyfirvalda - Ráðist til atlögu gegn ólögmætu samráði fyrirtækja.

Í dag, föstudaginn 16. mars, var gengið frá samningi á milli Danmerkur, Íslands og Noregs sem eflir möguleika samkeppnisyfirvalda landanna á aukinni samvinnu. Samningurinn styrkir yfirvöld í að vinna gegn ólögmætu samráði fyrirtækja og öðrum skaðlegum samkeppnishömlum. Mikilvægasta atriði samningsins er að samkeppnisyfirvöld geta skipst á trúnaðarupplýsingum í málum þar sem sameiginlegir hagsmunir eru fyrir hendi. Það á einnig við í samrunamálum.

Samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndum eru oft að fást við sömu úrlausnarefni - þess vegna er aukið samstarf nauðsynlegt.

„Við höfum sannreynt að þörf er fyrir aukið samstarf í því skyni að vinna á árangursríkari hátt gegn ólögmætu samráði fyrirtækja. Það á sérstaklega við um samráð, sem á sér stað í fleiri en einu Norðurlandanna. Yfirvöld þurfa því í slíkum málum að geta samræmt málsmeðferð og framkvæmd samkeppnisreglna“, segja forstjórar samkeppnisstofnana í löndunum þremur.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).