15.5.2001

Verðmyndun á innfluttu grænmeti í marsmánuði

Að beiðni landbúnaðarráðherra rannsakaði Samkeppnisstofnun verðmyndun á tilteknum tegundum af innfluttu grænmeti í marsmánuði sl. Athugunin tók annars vegar til tímabilsins 1.-15. mars og hins vegar tímabilsins 16.-31. mars eftir að tollur var lagður á
innflutningsverð grænmetisins.

Við rannsóknina var leitað eftir upplýsingum hjá þremur helstu innflytjendum grænmetis og 10 verslunum og verslunarkeðjum.

Samkeppnisstofnun leggur áherslu á eftirfarandi þegar niðurstöður rannsóknarinnar eru
virtar:

  1. Innkaupsverð á innfluttu grænmeti ræðst af verði á erlendum uppboðsmörkuðum
  2. Til skamms tíma litið getur innkaupsverð sveiflast mjög mikið
  3. Algengt er að innflytjendur kaupi inn sömu tegundir af grænmeti frá fleiri en einu upprunalandi
  4. Grænmeti er ýmist flutt til landsins með skipum eða flugvélum. Það getur haft mikil áhrif á kostnaðarverðið
  5. Vegna mismunandi skilgreiningar innflytjenda á magntengdum kostnaði og álagningu er líklegt að álagning innflutningsfyrirtækja sé ekki að öllu leyti samanburðarhæf
  6. Smásöluálagningu er ætlað að standa undir kostnaðarlið eins og rýrnun verslunarinnar sem er tiltölulega mikil á nýju grænmeti. Upplýsingar frá verslunum benda til að rýrnun geti verið 10-15% af innkaupsverði
  7. Þar eð rannsóknin nær yfir stutt tímabil er ekki unnt að draga þá ályktun að hún gefi almenna sýn á verðmyndun á innfluttu grænmeti.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).