Yfirtaka Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. og Lýsis hf. á Fóðurblöndunni hf.
Samkeppnisráð hefur ógilt yfirtöku Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. og Lýsis hf. á Fóðurblöndunni hf. Ráðið telur að samruninn sem felst í yfirtökunni raski samkeppni og leiði til markaðsráðandi stöðu Mjólkurfélagsins á fóðurmarkaði, en samanlagt hafa fyrirtækin tvö um 75% markaðshlutdeild.
Þann 29. júní 2001 seldi Búnaðarbanki Íslands hf. og eignarhaldsfélag bankans, Grænibær ehf., alla eignarhluti í Fóðurblöndunni til Mjólkurfélags Reykjavíkur og Lýsis. Eignaðist Mjólkurfélagið 75% af hlutafé í Fóðurblöndunni, en eignarhlutur Lýsis var 25%. Með þessum kaupum öðlaðist Mjólkurfélagið yfirráð yfir Fóðurblöndunni.
Meginstarfsemi Mjólkurfélagsins og Fóðurblöndunnar er áþekk. Samkeppnisráð telur að sá markaður sem mál þetta í höfuðdráttum tekur til sé markaðurinn fyrir innflutning fóðurgerðarefna, framleiðslu og sölu á alifugla-, svína- og jórturdýrafóðri.
Á þessum markaði höfðu Mjólkurfélagið og Fóðurblandan samanlagt um 75% markaðshlutdeild á árinu 2000. Telur samkeppnisráð að þessir miklu yfirburðir samrunafélaganna í markaðshlutdeild gefi einir og sér mjög sterka vísbendingu um að samruninn hafi skaðleg áhrif á samkeppni.
Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).