6.12.2001

Samkeppnisráð leggur sekt á Skífuna hf. vegna misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu þess

Samkeppnisráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að í samningi Skífunnar hf. og Aðfanga hf. um einkakaupasamning á hljómdiskum felist alvarlegt brot Skífunnar á samkeppnislögum. Með samningnum hafi fyrirtækið misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Samkeppnisráð hefur gert Skífunni að greiða 25 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna þessa brots. Eftir breytingar á samkeppnislögum sem tóku gildi fyrir réttu einu ári er það meginregla að leggja skuli stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn bannákvæðum samkeppnislaga.

Skífan og Hagkaup, f.h. Aðfanga, gerðu með sér samning í apríl 2001, sem gilda átti í tvö ár, sem fól í sér að Aðföng keyptu nær alla geisladiska til endursölu í verslunum Baugs hjá Skífunni. Samningurinn útilokaði, nánast að fullu, önnur heildsölu- og dreifingarfyrirtæki á hljómdiskum en Skífuna frá því að koma geisladiskum í sölu í verslunum Baugs fram á árið 2003. Japís hf. reyndi án árangurs að semja um að koma hljómdiskum í dreifingu í verslanir Baugs. Samningurinn við Skífuna kom í veg fyrir það. Japís og Félag íslenskra hljómlistarmanna sendu samkeppnisyfirvöldum erindi vegna þeirra samkeppnishindrana sem samningur Skífunnar og Aðfanga felur í sér.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).