Neytendur hvattir til að kynna sér verð og gæði á skólavörum
Um þessar mundir er skólastarf að hefjast. Mikil samkeppni ríkir milli verslana og auglýsingar dynja á neytendum hvar skólavörurnar fáist ódýrastar. Að gefnu tilefni hvetur Samkeppnisstofnun neytendur til að kynna sér sjálfir verð og gæði áður en kaup eru gerð.
Umfang verðkannana á skólavörum sem birtar hafa verið að undanförnu réttlæta ekki, að mati Samkeppnisstofnunar, þær ályktanir sem af þeim eru dregnar og koma fram í auglýsingum verslana um þessar mundir. Þannig er hæpið að alhæfa um verðlag í verslun út frá örfáum vörutegundum.
Samkeppnisstofnun brýnir því fyrir neytendum að kynna sér vel verð á skólavörum áður en kaup eru gerð. Hafa ber í huga að í sumum tilvikum þarf að kaupa stórar pakkningar til að ná fram því verði sem tilgreint er sem lægsta verð. Þá geta gæði vara verið mjög mismunandi.
Samkeppnisráð samþykkti á árinu 2000 leiðbeinandi reglur um verðkannanir til opinberrar birtingar í því skyni að tryggja að gerð og birting verðkannana sé í samræmi við góða viðskiptahætti. Sérstök áhersla er þar lögð á að verðkannanir gefi sem heildstæðasta mynd af markaðnum og að umfang kannana sé nægjanlegt til að réttlæta þær ályktanir sem af þeim eru dregnar.
Samkeppnisstofnun mun á næstunni taka auglýsingar á skólavörum til athugunar.