19.10.2004

Skýrsla norrænna samkeppnisyfirvalda um fjarskiptamarkaðinn

Í gær var kynnt skýrsla norrænna samkeppnisyfirvalda „Competition in the Nordic telecommunication sectors“. Verkefnið var styrkt af norrænu ráðherranefndinni og komu samkeppnisyfirvöld Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar að vinnslu þess.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að enn sé langt í land með að það myndist einn sameiginlegur norrænn fjarskiptamarkaður. Staðan er enn sú að það er mun dýrara að hringja þvert á landamæri en innan einstakra landa. Virðist skýringin á þessu ekki liggja að öllu leiti í hærri kostnaði við að veita þjónustu yfir landamæri. Þessi staðreynd hefur jafnframt áhrif á ákvarðanir íbúa um að starfa í öðru Norðurlandi og dregur þannig úr norrænni samþættingu.

Skýrslan leggur jafnframt áherslu á að enn þurfi að fylgjast náið með fjarskiptamörkuðum. Í þeim tilgangi að tryggja virka samkeppni sé nauðsynlegt að grípa án tafar til aðgerða vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Skýrslan lýsir og ber saman fjarskiptamarkaði á Norðurlöndum. Samanburðurinn er Íslandi bæði jákvæður og neikvæður. Þannig eru verð fyrir símtöl innanlands nokkuð ódýrari hér á landi, bæði í farsíma og talsíma. Þetta er áhugaverð niðurstaða sérstaklega þegar litið er til dreifðrar byggðar og lítils fjölda viðskiptavina á hvert fjarskiptafyrirtæki. Aftur á móti eru símtöl til útlanda enn nokkuð dýr hér á landi í samanburði við önnur Norðurlönd. Hugsanlegt er þó að þetta skýrist að einhverju leyti af legu landsins.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).