Tryggingafélögin þurfa að greiða 60,5 milljónir kr. í stjórnvaldssekt vegna ólögmæts verðsamráðs
Á fundi sínum í dag komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu með ákvörðun nr. 9/2005 að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (SA) hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með því að hafa átt í verðsamráði við Tryggingamiðstöðina hf. (TM) og Vátryggingafélag Íslands (VÍS). Forsaga málsins er sú að í júlímánuði árið 2002 leitaði til Samkeppnisstofnunar fyrirtæki sem starfar við bifreiðaréttingar og -sprautun og kvartaði yfir aðgerðum sem tryggingafélögin höfðu gripið til í tengslum við að taka upp nýtt kerfi við mat á bifreiðatjónum, svokallað Cabas-kerfi. Fyrirtækið hélt því fram að tryggingafélögin ákvæðu einhliða það einingaverð sem þau væru tilbúin að greiða bifreiðaverkstæðum fyrir viðgerðir. Verðið væri það sama hjá öllum félögunum og það benti til samráðs þeirra.
Í ákvörðun samkeppnisráðs er úrskurðað um þátt SA í máli þessu. Áður hafði samkeppnisráð gert sátt við VÍS og TM, sem nánari grein er gerð fyrir hér á eftir.
Í ákvörðun samkeppnisráðs er frá því greint að tryggingafélögin þrjú hafi ásamt fleirum unnið að því frá árinu 1999 að taka upp umrætt Cabas-kerfi. Þessu kerfi er ætlað að staðla þá vinnu sem fram fer við tjónamat og byggist á fyrirfram ákveðnum einingum í stað huglægs mats sem áður tíðkaðist. Nánar tiltekið er um að ræða reiknikerfi sem notað er til að meta fjölda áætlaðra vinnustunda við viðgerð ökutækja sem hafa orðið fyrir tjóni. Tjónakostnaður er fundinn út með því að meta tjónið í Cabas-kerfinu til ákveðinna eininga, þannig að t.d. teljast skipti á bretti á bifreið af ákveðinni tegund ákveðinn fjöldi eininga. Upplýsingar um hve margar einingar tiltekin tjón á ökutæki reiknast vera, eru að mestu staðlaðar í samræmi við niðurstöður mælinga sem gerðar hafa verið af sænskum seljendum kerfisins. Almennt er ætlast til þess að verð á hverri Cabas-einingu sé samningsatriði milli verkstæðis og tryggingafélags.
Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).