24.11.2020

Nýjar reglur um meðferð samrunamála

Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða

Samkeppniseftirlitið birtir nú til umsagnar endurskoðaðar reglur um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum. Hinar nýju reglur byggja að verulegu leyti á gildandi reglum frá árinu 2008, með síðari breytingum. Þær breytingar sem nú eru gerðar eru einkum af tvennum toga:

  1. Formfestar eru breytingar á verklagi við meðferð samrunamála sem miða að aukinni skilvirkni, en eftirlitið hefur áður leitað samráðs vegna þessa og efnt til fundar í fundarröðinni Samtal um samkeppni þar sem gagnlegar umræður fóru fram um reynsluna.
  2. Reglurnar eru uppfærðar með tilliti til breytinga á samkeppnislögum sem tóku gildi þann 23. júlí á þessu ári.

Nánar tiltekið eru hér eftirfarandi helstu breytingarnar sem felast í drögunum :

  • Til samræmis við breytingar á samkeppnislögum eru fjárhæðamörk veltu vegna tilkynninga á samrunum uppfærð, innleidd víðtækari heimild til þess að skila styttri tilkynningu vegna samruna og uppfærð ákvæði um tímafresti til rannsóknar samrunamála. Þá eru ákvæði um samrunagjald endurskoðaðar og færð til samræmis við ný lagafyrirmæli. 

  • Bætt er við ákvæði um heimild til samskipta við samrunaaðila í aðdraganda tilkynningar um samruna til undirbúnings málsmeðferðar (e. Pre-notification talks). Með ákvæðinu eru slík samskipti formgerð og markmiðið er að slíkur undirbúningur leiði til skjótari og enn vandaðri meðferðar samrunamála.

  • Bætt er við ákvæði um heimild til þess að boða samrunaaðila á stöðufundi þar sem Samkeppniseftirlitið kynnir samrunaaðilum stöðu rannsóknarinnar á viðkomandi tímamarki (e. State of play meeting). Tilgangur slíkra stöðufunda er að stuðla að gagnsærri, vandaðri og skilvirkari ákvarðanatöku í samrunamálum.

  • Bætt er við ákvæði um sáttarviðræður við Samkeppniseftirlitið vegna samruna. Tilgangur ákvæðisins er að setja skýrari ramma utan um slíkar viðræður til þess að tryggja bæði skilvirkni og réttindi aðila í slíkum viðræðum. Í ákvæðinu er fjallað um réttindi og kröfur sem gera verður til fyrirtækja sem óska eftir sáttarviðræðum og tímamark þegar tillögur að skilyrðum þurfa að koma fram.

  • Loks er í drögunum að finna ýmsar smærri breytingar, t.a.m. er kveðið á um að jafnframt skuli skila samrunatilkynningu og fylgiskjölum á rafrænu lesanlegu formi og skýrt kveðið á um möguleikann á því að birta samrunaskrár opinberlega við rannsókn samruna.   

Þess er óskað að athugasemdir við hjálögð drög að reglum um tilkynningu og málsmeðferð samrunamálum berist með bréfpósti eða á netfangið samkeppni@samkeppni.is eigi síðar en 5. desember nk.

Samhliða hyggst Samkeppniseftirlitið boða til opins fjarfundar (Samtal um samkeppni) þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt í umræðum um leiðbeiningarnar og hlusta á sjónarmið. Fjarfundurinn verður kynntur nánar síðar.

Drög að nýjum reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum.