Ráðstefna um áhrif samkeppni á hagvöxt og launakjör – upptaka af fundinum
Samkeppniseftirlitið stóð á dögunum fyrir morgunverðarfundi undir yfirskriftinni „Áhrif samkeppni á hagvöxt og launakjör“. Fundurinn fór fram á Grand Hótel í Reykjavík en aðalfyrirlesari var Fiona Scott Morton, hagfræðiprófessor við Yale-háskóla í Bandaríkjunum.
Fiona er með yfirgripsmikla reynslu á þessu sviði en hún er með doktorsgráðu frá Tækniháskólanum í Massachusetts (MIT) og hefur einblínt á samkeppnishagfræði í rannsóknum sínum. Þá starfaði Fiona um skeið sem aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna (Department of Justice) sem meðal annars fer með framkvæmd á þarlendum samkeppnislögum.
Í erindi sínu fjallaði Fiona meðal annars um rannsóknir á jákvæðum áhrifum samkeppni og samkeppniseftirlits á vinnumarkaði, þar með talið á kaup og kjör starfsfólks. Í erindi hennar kom fram að niðurstöður rannsókna bentu til þess að fyrirtæki með markaðsstyrk nýttu sér hann í samningum við starfsfólk. Þá hefðu stjórnvöld ýmsar leiðir til þess að bregðast við samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja gagnvart starfsfólki og þörf væri á virkri framfylgd samkeppnislaga að þessu leyti.
Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, steig í pontu á eftir Fionu og varpaði ljósi á erindi hennar og tengdi það við íslenskan veruleika og þá sérstaklega þýðingu þess fyrir lítil, opin hagkerfi á borð við það íslenska.
Í erindi sínu lýsti Gylfi stöðunni í íslensku atvinnulífi og bar saman fyrirtæki sem eiga í samkeppni á alþjóðlegum vettvangi og fyrirtæki sem njóta yfirburðarstöðu á innlendum markaði. Þá rakti Gylfi þær áskoranir sem fylgja fákeppnismörkuðum á borð við þann íslenska og mikilvægi kröftugs samkeppniseftirlits sem væri byggt á öflugri löggjöf.
Í lok fundar flutti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ávarp en neðst í fréttinni má nálgast upptöku af fundinum í heild.
Að ráðstefnunni lokinni hélt Samkeppniseftirlitið vinnustofu um stjórnunar- og eignatengsl í íslenskum sjávarútvegi. Á vinnustofuna mætti forsvarsfólk og fulltrúar ýmissa stofnana og ráðuneyta sem hafa með þessi mála að gera og sköpuðust gagnlegar og áhugaverðar samræður.