28.5.2024

Rangfærslur Viðskiptablaðsins um samruna Landsprents og þb. Torgs

  • Prentvel

Í frétt á vef Viðskiptablaðsins í dag er fjallað um samruna Landsprents ehf. og þb. Torgs vegna kaupa fyrrnefnda félagsins á prentvél og öðrum eignum. Í fréttinni er að finna rangfærslur um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins og um samkeppnislög sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Í fréttinni er ranglega fullyrt að samruninn hafi verið til rannsóknar í næstum heilt ár. Eins og ákvörðun á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins ber með sér tilkynnti Landsprent ehf. um viðskiptin sem samruna til eftirlitsins 9. nóvember 2023. Málsmeðferð og rannsókn Samkeppniseftirlitsins í samrunamálinu lauk 21. desember 2023 með bréfi til aðila um að ekki yrði aðhafst vegna samrunans. Tilkynning um lok málsins var birt á heimasíðu eftirlitsins þann 22. desember 2023. Birting ákvörðunar um meðferð og úrlausn málsins tafðist hins vegar vegna anna í öðrum málum og ófullnægjandi fjárheimilda.

Meðferð málsins tók því 30 virka daga. Fór rannsóknin að mestu fram í fyrsta fasa samrunamáls, en Samkeppniseftirlitið nýtti 5 daga af 90 í öðrum fasa rannsóknarinnar til að ljúka gagnaöflun og ganga frá málinu.

Þá er rangt að ekki hafi verið um samruna að ræða í skilningi samkeppnislaga, enda geta breytingar á yfirráðum yfir hluta fyrirtækis eða atvinnureksturs talist tilkynningarskyldur samruni, þótt seljandi sé bú fyrirtækis sem sé til gjaldþrotaskipta.

Í fréttinni eru jafnframt settar fram villandi upplýsingar um málshraða í samrunamálum hér á landi. Á liðnum árum hefur Samkeppniseftirlitið lagt áherslu á að ljúka sem flestum samrunamálum sem ekki krefjast íhlutunar á fyrsta fasa. Í því sambandi er rétt að benda á að 73% samruna sem tilkynntir voru til Samkeppniseftirlitsins á árunum 2021-2023 lauk á fyrsta fasa án þess að stofnunin teldi nauðsynlegt að rannsaka málin frekar. Þetta hlutfall er nokkru hærra en í nágrannalöndum sem stafar einkum af því að eðli máls samkvæmt kallar hærra hlutfall samruna á ítarlega rannsókn, í litlum hagkerfum þar sem samþjöppun er mikil. Jafnframt nýta samrunaaðilar sé forviðræður í ríkara mæli í mörgum nágrannalandanna, en með því er hægt að auðvelda og flýta rannsókn samrunamála.

Að öðru leyti er áhugasömum bent á að kynna sér ákvörðun nr. 10/2024 og tilkynningu Samkeppniseftirlitsins frá 22. desember 2023.

Frétt Viðskiptablaðsins er því í meginatriðum röng. Væntir Samkeppniseftirlitið þess að Viðskiptablaðið leiðrétti umfjöllun sína.