Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum Eimskips lokið með sátt
Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ætluð brot Eimskips og Samskipa hf. (og tengdra félaga) gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Rannsóknin tekur til háttsemi fyrirtækjanna á mörkuðum fyrir sjóflutninga, landflutninga, flutningsmiðlun og tengdrar þjónustu. Megin rannsóknartímabilið eru árin 2008 – 2013.
Eins og fram kom í yfirlýsingu frá 9. júní 2021 sneri Eimskip sér til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir formlegum viðræðum um hvort unnt væri með vísan til 17. gr. f. samkeppnislaga að ljúka rannsókn eftirlitsins á brotum fyrirtækisins með sátt. Í því ákvæði samkeppnislaga segir að hafi fyrirtæki gerst brotlegt við ákvæði laganna sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt. Geta fyrirtæki á hvaða stigi rannsóknar sem er óskað eftir sáttarviðræðum, sbr. 22. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið féllst á að hefja formlegar viðræður við Eimskip.
Eimskip og Samkeppniseftirlitið hafa í dag undirritað sátt vegna málsins en í henni felst að Eimskip viðurkennir alvarleg brot á samkeppnislögum, greiðir 1.500.000.000 króna í sekt, og skuldbindur sig til þess að grípa til aðgerða sem vinna gegn því að brot endurtaki sig.
Alvarleg samráðsbrot viðurkennd
Sáttin felur í sér að Eimskip viðurkennir alvarleg brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Nánar tiltekið viðurkennir Eimskip að hin alvarlegu brot hafi falist í eftirfarandi aðgerðum á megin rannsóknartímabilinu sem gripið var til eftir fund Eimskips og Samskipa 6. júní 2008:
- Samráð við Samskip á síðari hluta ársins 2008 um breytingar á siglingakerfum og takmörkun á flutningsgetu í sjóflutningum til og frá Íslandi.
- Samráð við Samskip um skiptingu á mörkuðum eftir stærri viðskiptavinum í sjó- og landflutningum. Samráð þetta var umfangsminna á lokaári rannsóknartímabilsins (á árinu 2013).
- Samráð við Samskip um álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningaþjónustu og um miðlun á mikilvægum verð- og viðskiptaupplýsingum. Samráð þetta var umfangsminna á lokaári rannsóknartímabilsins (á árinu 2013).
- Samráð við Samskip um landflutningaþjónustu á flutningaleiðum á Íslandi og skiptingu á mörkuðum á tilteknum flutningaleiðum.
- Samráð við Samskip um sjóflutninga milli Íslands og annarra Evrópulanda, og aðrar aðgerðir sem miðuðu að því að raska samkeppni í flutningsþjónustu.
- Samráð við Samskip um sjóflutninga milli Íslands og Norður-Ameríku þegar ekki var í gildi undanþága frá 10. gr. samkeppnislaga.
Eimskip viðurkennir einnig að tiltekið ólögmætt samráð við Samskip hafi verið fyrir hendi áður en fundur fyrirtækjanna 6. júní 2008 átti sér stað. Það samráð var hins vegar umfangsminna en samráðið sem hófst eftir umræddan fund. Tók það m.a. til landflutninga á Norðurlandi og samráðs um sjóflutninga milli Íslands og Norður-Ameríku þegar ekki var í gildi undanþága frá 10. gr. samkeppnislaga.
Til viðbótar viðurkennir Eimskip að hafa brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að hafa ekki veitt nauðsynlegar eða réttar upplýsingar eða afhent gögn í þágu rannsóknar Samkeppniseftirlitsins.
Unnið gegn því að brot endurtaki sig
Í sáttinni felst einnig að Eimskip skuldbindur sig til að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni.
Í þessu felst m.a. að Eimskip mun tryggja að ávallt sé fyrir hendi virkt innra eftirlit og fræðsla til þess að koma í veg fyrir að brot á samkeppnislögum endurtaki sig. Í því sambandi mun Eimskip sérstaklega gæta að því að stjórnendum og helstu starfsmönnum sé gerð grein fyrir ríkum kröfum um samkeppnislegt sjálfstæði fyrirtækja sem starfa á fákeppnismörkuðum og ströngu banni við hvers konar samskiptum við stjórnarmenn, stjórnendur eða aðra starfsmenn keppinauta eða mögulega keppinauta sem eru til þess fallin að raska samkeppni.
Eimskip skuldbindur sig til þess að yfirfara alla samninga sína við önnur flutningafyrirtæki með tilliti til samkeppnislaga. Jafnframt skuldbindur Eimskip sig til þess að hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við Samskip. Í þessu felst einnig að Eimskip skuldbindur sig til þess að eiga ekki í samstarfi við önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip á einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki. Þetta gildir ekki ef Eimskip getur sýnt Samkeppniseftirlitinu fram á að eðli viðkomandi samstarfs sé með þeim hætti að ekki sé hætta á röskun á samkeppni milli Eimskips og Samskipa.
Eimskip greiðir sekt
Í sáttinni felst að Eimskip greiðir 1.500.000.000 kr. í stjórnvaldssekt, vegna framangreindra brota. Sektin rennur í ríkissjóð. Við ákvörðun sektar er m.a. litið til þess að fyrirtæki sem stígur fram, viðurkennir alvarleg brot og skuldbindur sig til að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni, getur samkvæmt samkeppnislögum sætt lægri sektum en ella.
Þáttur Samskipa enn til rannsóknar
Með undirritun sáttarinnar er rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip lokið. Ætluð brot Samskipa eru hins vegar enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Bakgrunnsupplýsingar
Samkeppniseftirlitinu bárust ábendingar um ætluð brot Eimskips og Samskipa frá bæði viðskiptavinum og keppinautum fyrirtækjanna. Í kjölfar þessa hófst rannsókn Samkeppniseftirlitsins með húsleit hjá fyrirtækjunum í september 2013. Önnur húsleit var framkvæmd í júní 2014.
Samkeppniseftirlitið hefur síðan haft möguleg brot Eimskips til samfelldrar rannsóknar. Er umfang rannsóknarinnar, þar á meðal undirliggjandi gagnamagn, án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi. Þekkt er í samkeppnisrétti að rannsókn umfangsmikilla og eftir atvikum flókinna brotamála er eðli málsins samkvæmt tímafrek. Leiðir það m.a. af vinnu við að upplýsa um atvik mála, gæta þeirra réttinda sem fyrirtæki njóta samkvæmt stjórnsýslulögum, mögulegs dráttar fyrirtækja að veita fullnægjandi upplýsingar og taka til varna fyrir áfrýjunarnefnd og dómstólum ef fyrirtæki láta reyna á þætti í málsmeðferðinni.
Mál þetta hefur frá byrjun sætt forgangi hjá Samkeppniseftirlitinu. Við meðferð málsins hefur Samkeppniseftirlitið gefið Eimskip og Samskipum kost á að tjá sig um ítarlegt frummat eftirlitsins, en eftirlitið gætir andmælaréttar fyrirtækja í málum af þessu tagi með því að gefa út svokallað andmælaskjal. Í 17. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins kemur fram að í andmælaskjali „skal helstu atvikum málsins lýst og greint frá grundvelli þess í aðalatriðum að tilteknar aðstæður eða háttsemi kunni að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga.“ Fyrra andmælaskjal var birt fyrirtækjunum í júní 2018 og Eimskip og Samskipum boðið að koma athugasemdum og sjónarmiðum á framfæri. Síðara andmælaskjal var birt fyrirtækjunum í desember 2019. Athugasemdir beggja fyrirtækjanna við andmælaskjölin lágu fyrir 31. ágúst 2020. Mótmæltu bæði fyrirtækin að hafa gerst brotleg við 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins.
Af sáttinni leiðir eðli málsins samkvæmt að fyrri sjónarmið Eimskips þess efnis að brot hafi ekki verið framin, hafa ekki lengur þýðingu við úrlausn málsins.
Samkvæmt 17. gr. f. samkeppnislaga er sátt bindandi fyrir viðkomandi fyrirtæki þegar það hefur staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Með því að Eimskip hefur undirritað sáttina er rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum fyrirtækisins gegn 10. gr. samkeppnislaga, 19. gr. laganna og 53. gr. EES-samningsins lokið. Sem fyrr segir eru ætluð brot Samskipa enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.