Rannsóknir samrunamála - tímafrestir og rannsóknarefni
Í tengslum við umræðu síðustu daga um samrunamál, þar á meðal mögulegan samruna Íslandsbanka og Kviku, hafa opinberlega komið fram vangaveltur um tímalengd samrunarannsókna og rannsóknarefni.
Í þágu upplýstrar umræðu um þessi mál er gagnlegt að árétta nokkur atriði í tengslum við rannsóknir á samrunamálum, tímafresti og rannsóknarefni.
Samrunarannsóknir eru háðar lögbundnum tímafrestum. Það þýðir að Samkeppniseftirlitið hefur fyrirfram ákveðinn tíma til ljúka rannsókn eftir að fullbúinni samrunatilkynningu hefur verið skilað inn. Oft líður langur tími frá því að viðskipti eru kynnt opinberlega og þangað til samrunatilkynning berst Samkeppniseftirlitinu.
Góður undirbúningur samrunaaðila, upplýsingagjöf þeirra og mögulegar forviðræður við Samkeppniseftirlitið geta einfaldað rannsókn samruna og stytt málsmeðferðartíma. Eftir atvikum eru gefin út svokölluð andmælaskjöl sem tryggja vandaða rannsókn.
Samrunar fyrirtækja geta valdið almenningi og viðskiptalífinu miklu tjóni og sökum þessa er Samkeppniseftirlitinu falið eftirlit með þeim. Geta skaðlegir samrunar meðal annars leitt til hærra verðs, verri þjónustu, minni nýsköpunar og óhagkvæmni í rekstri.
Rannsóknir í samrunamálum geta verið afar yfirgripsmiklar og oft er í mörg horn að líta. Mikilvægi þeirra er þó ótvírætt þar sem tilgangurinn er alltaf að vernda almenning, hag þjóðarinnar og skapa heilbrigt markaðsumhverfi.
Hægt er að kynna sér nánar einstaka þætti með því að smella á plúsana hér að neðan.
Samrunaaðilar hafa mikið um tímalengd rannsóknar að segja – Samkeppniseftirlitið er hins vegar bundið af lögbundnum frestum
Rannsókn samrunamála hefst með því að samrunaaðilar skila inn fullbúinni samrunatilkynningu. Oft líður langur tími frá því að viðskipti eru tilkynnt opinberlega og þangað til tilkynning berst Samkeppniseftirlitinu og það getur hafist handa við gagnaöflun og rannsókn málsins.
Þegar fullbúin samrunatilkynning hefur borist hefjast lögbundnir tímafrestir, fyrst 25 virkir dagar (I. fasi) og síðan 90 virkir dagar (II. fasi) sem Samkeppniseftirlitið virkjar í flóknari málum, þ.e. ef það telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna.
Þetta þýðir að rannsókn samruna sem tilkynntur er 1. febrúar 2023, er almennt lokið eigi síðar en 21. júlí sama ár.
Á þessu eru þó tvær undantekningar sem báðar eru á forræði samrunaaðila. Annars vegar kunna samrunaaðilar að setja fram tillögur um möguleg skilyrði í málinu svo seint (eftir 55. virka dag rannsóknar) að 15 daga viðbótarfrestur virkjast í málinu, til þess að eftirlitið fái ráðrúm til að meta skilyrðin og bregðast við þeim. Hins vegar geta samrunaaðilar einhliða óskað þess að fresturinn sé framlengdur um allt að 20 virka daga í viðbót.
Samrunaaðilar geta líka á hvaða stigi sem er afturkallað samrunatilkynningu og þannig bundið enda á rannsóknina.
Undirbúningur samrunaaðila skiptir sköpum - forviðræður
Góður undirbúningur samrunaaðila, upplýsingagjöf þeirra og mögulegar forviðræður við Samkeppniseftirlitið geta einfaldað rannsókn samruna og stytt málsmeðferðartíma.
Samrunaaðilum gefst kostur á forviðræðum við Samkeppniseftirlitið, þ.e. áður en tilkynningu er skilað og frestir byrja að líða. Þær geta verið háðar trúnaði. Gagnsemi forviðræðna ræðst einkum af því að hvaða marki samrunaaðilar eru reiðubúnir að eiga hreinskiptnar viðræður við Samkeppniseftirlitið og leggja spilin á borðið. Ef svo er og Samkeppniseftirlitið þekkir viðkomandi markaði vel, geta forviðræður dregið fram helstu álitaefni um samkeppnisleg áhrif samrunans og þannig auðveldað samrunaaðilum að meta hvort rétt sé að ráðast í sameiningu.
Einnig geta forviðræður nýst til þess að tryggja að Samkeppniseftirlitið fái í hendur öll fullnægjandi gögn og upplýsingar samhliða eða mjög fljótlega eftir tilkynningu samrunans eða jafnvel fyrr.
Stöðufundir til að greiða fyrir úrlausn máls
Samkeppniseftirlitið býður einnig oft upp á stöðufundi við úrvinnslu samrunamála sem krefjast mjög ítarlegrar rannsóknar. Með þeim er hægt að koma upplýsingum um framgang málsins eins fljótt og hægt er til samrunaaðila. Á slíkum fundum gerir eftirlitið m.a. grein fyrir frummati sínu á því stigi rannsóknar.
Stöðufundir geta því gert samrunaaðilum kleift að meta hvort rétt sé að halda áfram með samrunaáformin, leggja til skilyrði til að koma í veg fyrir neikvæð samkeppnisleg áhrif samrunans eða afturkalla hann. Þá geta stöðufundir orðið samrunaaðilum tilefni til þess að óska sáttaviðræðna.
Andmælaskjöl gefin út til að tryggja vandaða rannsókn
Telji Samkeppniseftirlitið að íþyngjandi ákvörðun kunni að verða tekin í málinu, tekur eftirlitið saman greinargerð sem nefnist andmælaskjal. Í því er efni málsins lýst og birt frummat á samkeppnislegum áhrifum samrunans.
Með útgáfu andmælaskjals í samrunamáli gengur Samkeppniseftirlitið lengra en gerð er almenn krafa um í stjórnsýslurétti. Það auðveldar samrunaaðilum að nýta sér andmælarétt sinn og koma gagnsjónarmiðum og e.a. frekari gögnum að í málinu.
Af hverju samrunarannsóknir?
Samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga er markmiðið með samkeppnislögum það að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Fram kemur að markmiði þessu skuli náð með því m.a. að vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að mörkuðum.
Eðli máls samkvæmt leiða samrunar fyrirtækja að óbreyttu til þess að fyrirtækjum á viðkomandi mörkuðum fækkar og hætta er á að samkeppni skerðist af þeim sökum. Getur það þýtt að viðskiptavinir þurfi að greiða hærra verð eða fá verri eða minni þjónustu. Þar af leiðandi er mikilvægt að leggja mat á áhrif samruna á samkeppni hverju sinni. Samrunareglur samkeppnislaga eru að evrópskri fyrirmynd og fer sambærilegt samrunamat fram í flestum eða öllum ríkjum á EES svæðinu, sem og á vettvangi framkvæmdarstjórnar ESB.
Íslenskir markaðir eiga það oft sammerkt að á þeim starfa tiltölulega fá fyrirtæki. Á mörgum mörkuðum eru jafnframt talsverðar aðgangshindranir, en í því felst m.a. að erfitt er að komast inn á markaði og lítið aðhald er erlendis frá.
Á slíkum mörkuðum geta samrunar (aukin samþjöppun) verið mjög skaðlegir fyrir hagsmuni almennings og efnahag þjóðarinnar. Samrunarannsóknir eru oft eina tækifærið til þess að koma í veg fyrir slíkan skaða.
Hvað er til rannsóknar?
Í samrunamálum er til rannsóknar hvort markaðsráðandi staða sé að verða til eða styrkjast. Einnig er til rannsóknar hvort samruni raski samkeppni að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Samruni getur þannig skaðað samkeppni og verið tilefni íhlutunar jafnvel þótt markaðsráðandi staða sé ekki að styrkjast eða verða til.
Við mat á þessu beitir Samkeppniseftirlitið sömu viðmiðum og samkeppnisyfirvöld annars staðar á Evrópska efnahagsvæðinu. Byggir eftirlitið því m.a. á fordæmum úr ESB og EES-rétti.
Í sumum tilvikum blasir við að samruni hefur lítil áhrif á samkeppni og er hann því fljótafgreiddur. Í öðrum tilvikum getur verið um umfangsmikil og flókin mál að ræða sem varða almannahagsmuni miklu. Í slíkum tilvikum þarf að fara fram ítarleg rannsókn á áhrifum viðkomandi samruna.
Nefna má eftirfarandi dæmi:
- Hvernig ber að skilgreina viðkomandi markaði, þ.e. á hvaða vörur og þjónustu hefur samruninn áhrif og á hvaða landssvæðum?
- Á hvaða sviðum skarast starfsemi samrunafyrirtækja?
- Hver er markaðshlutdeild á viðkomandi mörkuðum og hversu mikil verður samþjöppunin?
- Hversu auðvelt eða erfitt er að komast inn á markaðinn (aðgangshindranir)?
- Hver er þýðing samrunafyrirtækis eða -fyrirtækja, óháð markaðshlutdeild? Er hið yfirtekna fyrirtæki t.d. mikilvægara fyrir samkeppni heldur en markaðshlutdeild þess gefur til kynna?
- Hvaða aðhald eru keppinautar og viðskiptavinir líklegir til að geta veitt ef samruninn gengur eftir?
- Hvaða áhrif hefur samruninn á stöðu og getu samrunaaðila og helstu keppinauta þeirra til að stilla saman strengi sína, m.ö.o. leiðir samruninn til aukinnar hættu á samráði eða þegjandi samhæfingu á milli þeirra fyrirtækja sem starfa á viðkomandi markaði?
- Hefur hið sameinaða fyrirtæki getu til að útiloka keppinauta sína í kjölfar samrunans?
- Hefur hið sameinaða fyrirtæki hvata og getu til þess að yfirfæra mögulegan markaðsstyrk frá einum markaði til annars í kjölfar samrunans?
Frekari upplýsingar
Nánar má lesa um tímafresti og rannsóknir samrunamála á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins. Þar má einnig finna lista yfir samrunamál sem eru til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu og þau mál sem búið er að rannsaka á síðustu misserum.
Síðasta haust birti Ríkisendurskoðun niðurstöður stjórnsýsluúttektar á Samkeppniseftirlitinu sem beindist ekki síst að málsmeðferð í samrunamálum. Taldi Ríkisendurskoðun að málsmeðferðartími hefði hvorki verið óeðlilega langur né veikleikar í afgreiðslu sem grafið hefðu undan skilvirkni og árangri rannsókna á því tímabili sem til skoðunar var. Hins vegar setti Ríkisendurskoðun fram ýmsar tillögur og ábendingar sem horfa til þess að styrkja starfsemina.
Nánari upplýsingar um úttektina og viðbrögð Samkeppniseftirlitsins má nálgast á sérstakri upplýsingasíðu á heimasíðu eftirlitsins.