13.3.2020

Ríkisaðstoð vegna COVID-19

Til að aðstoða íslensk stjórnvöld vegna COVID-19 hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) stofnað starfshóp sem verður stjórnvöldum innan handar vegna ráðstafana sem gætu flokkast sem ríkisaðstoð samkvæmt samkeppnisreglum EES-samningsins.

Ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins taka tillit til sérstakra aðstæðna líkt og COVID-19, og er í samningnum að finna lagastoð fyrir margvíslegum ráðstöfunum sem unnt er að veita fyrirtækjum í rekstrarerfiðleikum. Hvers kyns ríkisaðstoð eða ríkisaðstoðarkerfi þarf að hljóta samþykki ESA áður en það kemst til framkvæmdar. Með fyrrgreindum starfshópi er ESA reiðubúið að taka afstöðu til veitingu ríkisaðstoðar á skömmum tíma.

Á heimasíðu ESA má finna upplýsingasíðu um ríkisaðstoðarreglur og COVID-19.

Í gær samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ríkisaðstoðarkerfi sem dönsk yfirvöld ætla að setja á laggirnar, til þess að greiða skipuleggjendum viðburða í Danmörku bætur vegna tjóns sem hlýst vegna afboðunar útaf COVID-19. Er þetta fyrsta ríkisaðstoðin sem hefur verið samþykkt vegna COVID-19. Fréttatilkynning frá því í gær er aðgengileg hér