16.3.2021

Sala verslunar Festi á Suðurlandi

Þann 11. mars sl. synjaði Samkeppniseftirlitið Festi um sölu verslunar Kjarvals á Hellu til óstofnaðs einkahlutafélags Sigurðar Elíasar Guðmundssonar.

Tildrög máls þessar eru að vegna samruna N1 hf. og Festi hf. gekkst hið sameinaða félag undir sátt við Samkeppniseftirlitið þann 30. júlí 2018. Til þess að efla samkeppni á Hellu, Hvolsvelli og nágrenni vegna markaðsstyrks Festi lagði félagið til og samþykkti að selja verslun sína á Hellu. Nýverið tilkynnti Festi að það hefði náð samkomulagi um sölu á Kjarvalsverslun sinni á Hellu til óstofnaðs einkahlutafélags í eigu Sigurðar Elíasar Guðmundssonar.

Þann 25. febrúar sl. barst Samkeppniseftirlitinu rökstutt álit óháðs kunnáttumanns samkvæmt sáttinni á hæfi kaupanda. Í álitinu komst kunnáttumaður að þeirri niðurstöðu að umræddur kaupandi uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru til hæfis hans samkvæmt ákvæðum sáttarinnar, um að kaupandi væri óháður Festi og ekki í neinum tengslum við félagið. Einnig léki vafi á um fjárhagslegan styrk og hvata kaupanda til þess að veita Festi umtalsvert samkeppnislegt aðhald á svæðinu líkt og sáttin áskilur. Í kjölfar rannsóknar og athugunar með tilliti til fyrirliggjandi gagna komst Samkeppniseftirlitið að efnislega sömu niðurstöðu. Vegna þessa synjaði Samkeppniseftirlitið Festi um sölu verslunarinnar á Hellu til óstofnaðs einkahlutafélags Sigurðar Elíasar Guðmundssonar, í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er um í sáttinni.

Ef Festi hf. tekst ekki að selja verslun Kjarvals á Hellu gera skilyrði sáttarinnar ráð fyrir því að aðrar eignir félagsins verði þess í stað seldar. Samkeppniseftirlitið áréttar að mjög brýnt er að fyrirtæki hlíti skilyrðum samruna og að treysta megi því að sáttir í slíkum málum séu virtar. Mikilvægt er fyrirtæki og aðilar að samrunamálum taki alvarlega þau skilyrði sem þau leggja til og sett eru fyrir samrunum, ekki síður í ljósi þess að fyrirtækin sjálf taka þátt í mótun þeirra. Rétt er í þessu sambandi að minna á að samrunaaðilar lögðu umrædd skilyrði til með það fyrir augum að efla samkeppni á svæðinu til hagsbóta íbúa á svæðinu og aðra notendur umræddrar þjónustu.

Loks skal tekið fram að Samkeppniseftirlitið hefur nú til rannsóknar möguleg brot Festi á umræddri sátt, m.a. vegna tafa við sölu á eignum félagsins.