24.10.2018

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir bráðabirgðaákvörðun vegna gjaldtöku Isavia

Þann 17. júlí 2018 tók Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia ohf. var gert að stöðva tímabundið þá gjaldtöku á ytri rútustæðum (fjarstæðum) við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem tók gildi 1. mars 2018. Til stóð hjá Isavia að hækka umrædd gjöld verulega 1. september sl. en þá átti svokallaður afsláttur á aðlögunartímabili að falla niður. Var þessi ákvörðun um stöðva gjaldtöku tekin þar sem sennilegt var talið að Isavia hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með óhóflegri verðlagningu við gjaldtöku fyrir notkun á fjarstæðum. Jafnframt var talið sennilegt að Isavia hafi mismunað viðskiptavinum í verðlagningu og skilmálum. Þá taldi Samkeppniseftirlitið að bið eftir endanlegri ákvörðun gæti skaðað samkeppni og haft veruleg skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækja sem nýta þurfi fjarstæðin. Gildir þessi ákvörðun til 31. desember 2018.

Isavia skaut bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Með úrskurði sínum í dag hafnaði áfrýjunarnefnd þessari kröfu Isavia. Byggir áfrýjunarnefnd m.a. á því að Isavia sé í einokunarstöðu og samkeppnislög geri mjög ríkar kröfur til til slíkra fyrirtækja. Telur áfrýjunarnefnd að undirbúningur Isavia að gjaldtökuni hafi verið óvandaður og fyrirtækið ekki gert viðhlítandi grein fyrir kostnaði við að veita þjónustu við fjarstæðin. Sennilegt sé að gjaldataka Isavia sé óhófleg og ólögmæt og brýnt hafi verið bregðast við henni. Úrskurður áfrýjunarnefndar er aðgengilegur hér.