7.7.2022

Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss um að jafna stöðu fyrirtækja sem eiga í viðskiptum við tónlistarhúsið

  • Untitled-design-94-

Samkeppniseftirlitið hefur í dag beint áliti til Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. (hér eftir Harpa). Þar eru sett fram tiltekin tilmæli til fyrirtækisins sem ætlað er að jafna stöðu fyrirtækja sem eiga viðskipti við tónlistarhúsið og tónleikahaldara sem bjóða upp á hljóð- og lýsingarbúnað og ýmsa tengda þjónustu.

Harpa er opinbert hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins. Eitt af hlutverkum Samkeppniseftirlitsins er að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila, þar á meðal opinberra fyrirtækja í samkeppnisrekstri, takmarki ekki samkeppni og benda á leiðir til þess að gera hana virkari og auðvelda aðgang nýrra aðila að markaði.

Harpa er öflugur aðstöðuveitandi fyrir fjölbreytt viðburða- og tónleikahald innandyra, með stærsta sal hússins, Eldborg, í forgrunni. Þessi aðstaða á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Samkeppniseftirlitið telur sterkar líkur á því að Harpa, sé markaðsráðandi hér á landi sem aðstöðuveitandi á þessu sviði.

Þessi staða, ásamt með eignarhaldi opinberra aðila, leggur Hörpu ríkar skyldur á herðar að raska ekki samkeppni á tengdum samkeppnismörkuðum þar sem önnur minni fyrirtæki keppa meðal annars við að bjóða tónleikahöldurum upp á hljóð- og lýsingarbúnað og ýmsa tengda þjónustu. Mikilvægt er að félagið meti stöðu sína reglulega og starfi innan þeirra marka sem samkeppnislög setja markaðsráðandi fyrirtækjum og félögum í opinberum rekstri.

Samkeppniseftirlitið hefur á undanförnum árum leitað upplýsinga og sjónarmiða vegna starfsemi Hörpu vegna kvartana og ábendinga sem eftirlitinu hafa borist. Samkeppniseftirlitið hefur hingað til ekki talið forsendur til þess að að grípa til íhlutunar gagnvart Hörpu, en vill með áliti þessu draga saman ályktanir af þeim athugunum sem gerðar hafa verið.

Samkeppniseftirlitinu barst fyrst kvörtun vegna starfsemi Hörpu árið 2013 og síðan þá hafa fleiri kvartanir borist. Árin 2015 og 2017 beindi Samkeppniseftirlitið tilmælum til Hörpu um að endurskoða viðskiptaskilmála sína þannig að sanngjörnum og málefnalegum kröfum um gæði og öryggi yrði mætt án þess að samkeppni væri raskað. Leiddu tilmælin til þess að Harpa breytti skilmálum sínum, en þrátt fyrir það bárust Samkeppniseftirlitinu frekari ábendingar og kvartanir vegna starfsemi Hörpu.

Eins og kunnugt er lá viðburðahald á Íslandi að mestu leyti niðri um langa hríð vegna Covid-19. Nú, þegar viðburðahald er komið aftur á fullan skrið, telur Samkeppniseftirlitið tímabært að draga lærdóm af fyrri athugunum og setja fram álit þetta. Með álitinu eru sett fram tilmæli sem eru til þess fallin að efla samkeppni á mörkuðum þar sem viðskiptavinir til að mynda á sviði útleigu á hljóð- og lýsingarbúnaði starfa og einnig eftir atvikum á öðrum mörkuðum.

Tilmælin eru eftirfarandi:


a) Að Harpa yfirfari verklag við undirbúning samninga, samningagerð um kaup á búnaði og þjónustu og birti á heimasíðu sinni verklagsreglur um hvernig fyrirtækið beiti útboðum og verðkönnunum í starfsemi sinni. Við stærri innkaup og samningagerð verði samkeppnisleg áhrif metin með hliðsjón af leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismat stjórnvalda, sbr. álit eftirlitsins nr. 2/2009. Tryggt verði með þessu að Harpa geri ekki samninga við viðskiptavini sem fela í sér ómálefnalega útilokun eða takmörkun á viðskiptum við aðra aðila.

Skýring: Athuganir á kvörtunum og ábendingum gefa til kynna að Harpa hafi átt meiri hluta viðskipta vegna kaupa á hljóðkerfum og ljósakerfum við eitt fyrirtæki. Meginskýring þess er að viðkomandi fyrirtæki varð hlutskarpast í útboði á árinu 2009. Harpa hefur hins vegar ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að það hafi í starfsemi sinni greitt fyrir viðskiptum við önnur fyrirtæki sem starfa á markaðnum og með því skapað samkeppnislegt aðhald sér til hagsbóta og til hagsbóta fyrir mögulega viðsemjendur.


b) Að Harpa endurskoði verklag og reglur sem heimila viðskiptavinum að leigja og nýta tækjabúnað frá öðrum aðilum en Hörpu. Miði endurskoðunin að því að draga úr mögulegum hindrunum á þessu sviði. Meðal annars er mælst til þess að fallið verði frá því að gera það að skilyrði að Harpa leigi búnaðinn og endurleigi síðan til viðskiptavina. Einnig verði tryggt að gjaldtaka Hörpu í tengslum við uppsetningu utanaðkomandi búnaðar verði ekki hærri en sannanlega nemur þeim kostnaði sem af verkinu hlýst fyrir Hörpu. Þá verði verklag endurskoðað með það að markmiði að draga úr kostnaði.

Skýring: Kvartað hefur verið yfir því að Harpa hafi unnið gegn því að flytjendur tónlistar og tónleikahaldarar geti komið með eigin og/eða utanaðkomandi hljóðkerfi eða búnað til nota í tónleikahúsinu. Harpa brást að hluta til við þessum kvörtunum með því að rýmka heimildir til þessa. Áfram hefur þó verið kvartað yfir miklum kostnaði og öðrum mögulegum hindrunum. Til dæmis er áskilið að búnaður sé leigður í gegnum Hörpu og endurleigður til viðkomandi viðskiptavina. Hefur Harpa haldið því fram að þetta sé nauðsynlegt vegna virðisaukakvaðar sem hvíli á félaginu. Einnig er áskilnaður um að viðskiptavinir kosti vinnu tæknimanna Hörpu, sem að mati kvartenda geti leitt til tvöfalds kostnaðar. Tilmælunum er ætlað að vinna gegn þessu.


Álitið í heild má nálgast hér.