Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Samhentra Kassagerðar hf. á hluta af rekstri Kassagerðar Reykjavíkur ehf.
Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun um að aðhafast ekki vegna samruna Samhentra Kassagerðar hf. og Kassagerðar Reykjavíkur ehf.
Að undangengnu frummati Samkeppniseftirlitsins á samrunanum ákváðu samrunaaðilar að breyta undirliggjandi kaupsamningi með þeim hætti að rekstrareiningar KR fyrir bylgjupappa og vaxaðar öskjur voru undanskildar kaupunum og þar með ekki lengur hluti samrunans. Hafði Samkeppniseftirlitið leitt rök að því að samruninn myndi raska samkeppni á þessum afmörkuðu sviðum.
Við meðferð málsins veitti Samkeppniseftirlitið samrunaaðilum undanþágu til að framkvæma samrunann. Var þetta gert með með hliðsjón af erfiðri stöðu hins yfirtekna félags og ytri aðstæðna á markaði, m.a. í tengslum við COVID-19. Voru undanþágunni sett tiltekin skilyrði sem miðuðu að því að samkeppni á mörkuðum málsins yrði ekki raskað og auðvelt yrði að vinda ofan af samrunanum yrði hann ógiltur. Á grundvelli þessara skilyrða var sá hluti reksturs KR sem að samrunanum tók að lokum ekki til færður aftur til KR.
Í ákvörðun eftirlitsins er að finna ítarlegri umfjöllun um meðferð málsins og mat á samkeppnislegum áhrifum samrunans miðað við þær breytingar á samrunanum sem lýst hefur verið hér að framan.