5.10.2023

Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Sýnar á Já með skilyrðum

  • Syn-ja

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar samruna sem felst í kaupum Sýnar á upplýsingaþjónustunni Já. Við rannsókn málsins aflaði Samkeppniseftirlitið sjónarmiða og upplýsinga frá markaðs- og hagaðilum.

Gaf rannsóknin til kynna að staða Já á markaði fyrir aðgengi að gagnagrunni um símanúmer og smásölumörkuðum sem byggja á gagnagrunninum, t.d. upplýsingaþjónusta í síma og upplýsingaþjónusta á Internetinu, væri sterk og gæti styrkst með samruna við Sýn. Einnig gaf rannsóknin til kynna að sú staða að Sýn verði eigandi Já, sem er mikilvægur viðskipta- og þjónustuaðili fyrir bæði Já og helsta keppinaut þess, gæti haft skaðleg samkeppnisleg áhrif. Jafnframt gaf rannsóknin til kynna að fyrir hendi væru aðstæður þar sem mögulega gætu viðkvæmum viðskiptaupplýsingum um viðskiptavini annarra fjarskiptafyrirtækja verið miðlað til Sýnar.

Í því skyni að koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans hefur verið gerð sátt í málinu sem miðar að því að draga úr og/eða koma í veg fyrir framangreind atriði sem rannsóknin gaf til kynna. Þannig er heildsölu Sýnar meðal annars skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart öðrum upplýsingaþjónustufyrirtækjum og óheimilt að greina Já frá trúnaðarupplýsingum um keppinauta eða mögulega keppinauta. Þá er sett bann við að miðla viðkvæmum viðskiptaupplýsingum frá Já til Sýnar og takmörkun á rekjanleika. Einnig samþykkti Sýn að veita öðrum upplýsingaþjónustum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, einhliða einskiptisaðgang að grunnupplýsingum til jafna aðstöðumun.

Sáttina má nálgast hér.

Það er því niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að með þessum skilyrðum hafi samruninn ekki skaðleg áhrif á samkeppni. Nánari forsendur þessarar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í málinu verða birtar á næstunni.